Ridley Scott og ráðgjafinn

Þó svo að undirbúningur fyrir næstu stórmynd leikstjórans Ridley Scott, Promotheus, sé í hámarki er meistarinn strax byrjaður að undirbúa næsta verkefni. Scott hefur ákveðið að taka að sér leikstjórn myndarinnar The Counselor.

Handritshöfundur The Counselor er enginn annar en rithöfundurinn Cormac McCarthy. McCarthy hefur m.a. skrifað bókina No Country For Old Men sem Coen bræðurnir komu svo eftirminnilega á hvíta tjaldið árið 2007 (endirinn á þeirri mynd er geggjaður og mér er slétt sama hvað ykkur finnst). McCarthy fékk einnig Pulitzer verðlaunin árið 2007 fyrir verk sitt The Road, sem kom út árið 2006 og fékk gríðarlega góðar móttökur.

Sögupersona The Counselor er lögfræðingur frá New York sem heldur að hann geti fiktað með eiturlyf samfara starfi sínu. Sú ákvörðun fer illa með hann og að lokum verður hann að bjarga sér úr erfiðum aðstæðum.

McCarthy skrifaði handritið án vitundar umboðsmanns síns sem var síðan keypt af nokkrum kvikmyndaframleiðendum. Framleiðendurnir sendu það til Scott sem leist svo vel á verkið að hann ákvað að taka það að sér. Scott tók handritið fram yfir önnur verkefni, m.a. söguepík um Gertrude Bell og kvikmynd byggð á bókinni Child 44. Þetta er fyrsta upprunalega kvikmyndahandrit McCarthy, en ekkert hefur verið ákveðið varðandi útgáfudagsetningu myndarinnar.

Ég veit ekki með ykkur en Ridley Scott ásamt ‘Pulitzer handritshöfundi’ hljómar fáránlega vel. Ég hef heyrt frumlegri söguþræði en ég vona svo innilega að hér sé solid spennudrama á ferð.