Ærsladraugur á Englandi – Fyrsta stikla úr Conjuring 2

Fyrsta stiklan í fullri lengd úr hrollvekjunni sem margir hafa beðið eftir, Conjuring 2, kom út í dag. Leikstjóri myndarinnar er sá sami og gerði fyrri myndina, James Wan, en fyrir þá sem ekki vita þá hefur hann leikstýrt þónokkrum vinsælum hrollvekjum og nægir þar að nefna fyrstu Saw myndina og Insidious myndirnar.

conjuring

Fyrir tveimur mánuðum síðan var birt kitla, en nú er komið að stiklunni – kíktu á hana hér fyrir neðan – ef þú þorir! :

Um er að ræða framhald hinnar vel heppnuðu og vinsælu The Conjuring frá árinu 2013, en myndirnar eru byggðar á raunverulegum málum dulrænu rannsakendanna Ed og Lorraine Warren. Þau ferðuðust um heiminn og aðstoðuðu fólk sem átti í vandræðum með illa anda.

Í starfi sínu þá tóku þau upp mikið af efni sem James Wan notaði til að undirbúa myndirnar.

Fyrri myndin fjallaði um mál fjölskyldu á Rhode Island árið 1971, en framhaldið gerist í Englandi, seint á áttunda áratug síðustu aldar og fjallar um hinn vel þekkta Enfield ærsladraug.

Aðalleikararnir, þau Patrick Wilson og Vera Farmiga, snúa bæði aftur í þessari framhaldsmynd.

The Conjuring 2 kemur í bíó 10. júní nk.