Hrollvekjandi Börn Wan og Cardellini

Þegar kemur að því að búa til hrollvekjur þá eru fáir ólatari við þá iðju en Saw og Conjuring leikstjórinn James Wan, en hrollvekjurnar hafa runnið frá honum á færibandi síðustu misserin og er ekkert lát þar á.

Sú allra nýjasta sem er á teikniborðinu hjá honum og framleiðslufyrirtæki hans, Atomic Monster, heitir The Children, eða Börnin, í lauslegri íslenskri þýðingu.  Nú berast þær fregnir að hann sé búinn að ráða enga aðra en Daddy´s Home leikkonuna Linda Cardellini í aðalhlutverkið í myndinni.

Leikstjóri verður Michael Chaves, og þeir félagar Mikki Daughtry og Tobias Iaconis skrifa handritið.

The Children fjallar um félagsráðgjafa, sem Cardellini leikur, sem fær það verkefni að rannsaka dularfullt hvarf tveggja barna. En eftir því sem rannsókn hennar miðar áfram, þá kemst hún að skelfilegum atburðum, sem ógnað gætu ekki bara henni, heldur fjölskyldu hennar líka.

Ekki hefur enn verið ákveðið hvenær tökur hefjast, en kvikmyndin fer væntanlega aftast í röðina á eftir öllum hinum myndunum sem Wan er með í framleiðslu, myndum eins og hliðarmyndum Conjuring myndaflokksins.

Cardellini snýr hinsvegar aftur í nóvember í Daddy´s Home 2.