Frönsk kvikmyndahátíð hefst á morgun

Kvikmyndin The Artist opnar franska kvikmyndahátíð sem hefst á morgun. Kvikmyndahátíðin hefur fest sig í sessi undanfarin ár og í þetta skiptið verða 10 myndir sýndar. Kvikmyndin Stríðsyfirlýsing (La Guerre est declarée) verður einnig sýnd á hátíðinni, en hún hefur vakið töluverða athygli í Evrópu.

Óhætt er að segja að The Artist hafi slegið í gegn í fyrra en myndin hlaut 10 tilnefningar til Óskarsverðlauna í ár, þar á meðal sem besta kvikmynd. Hún fór mikinn á Golden Globes verðlaunahátíðinni fyrir stuttu þar sem hún hlaut þrenn verðlaun (besta kvikmynd, besti leikari í aðalhlutverki og besta tónlist).

Sýningar fara fram í Háskólabíói og stendur hátíðin yfir frá og með morgundeginum til 9.febrúar. 5 mynda afsláttarpassar eru til sölu á Miði.is á 3.900 kr. Almennt miðaverð á staka kvikmynd er 1.250 kr.

Myndirnar sem sýndar eru á hátíðinni
The Artist.
Stríðsyfirlýsing (La Guerre est declarée).
Saman er einum of (Ensemble, c’est trop).
Barnsfaðirinn (Le Père de mes Enfants).
Athvarfið (Le Refuge).
Hadewijch
Sá sem kallar (Un Homme qui crie).
Sérsveitin (Forces spéciales).
Öld myrkursins (L’Age des Ténèbres).
Þrauki einn, fylgja hinir (Qu’un seul tienne …)