Pottermaður gerir nýja Tarzanmynd

David Yates, leikstjóri fjögurra síðustu Harry Potter mynda, hefur nú loksins fundið sér nýtt verkefni, en samkvæmt heimildum Vulture.com vefsíðunnar, er það enginn annar en Tarzan konungur apanna, sem Yates mun spreyta sig á næst.  Samkvæmt heimildum síðunnar er Yates byrjaður að funda með mögulegum leikurum, eins og Henry Cavill úr Superman myndinni Man of Steel, Charlie Hunnam úr vísindaskáldsögunni Pacific Rim og Alexander Skarsgård úr True Blood þáttunum.

Vefsíðan skýtur því einnig inn að Warner Bros sem framleiðir myndina, renni hýru auga til Tom Hardy, sjálfs Bane úr The Dark Knight Rises, en engum sögum fer af áhuga hans.

Tarzan er eftir rithöfundinn Edgar Rice Burroughs, en síðasta mynd sem gerð var eftir sögu Burroughs var ævintýramyndin John Carter, sem skilaði Disney gríðarlegu tapi, eða 200 milljónum Bandaríkjadala fyrr á þessu ári. Vonandi gengur þeim betur með Tarzan!