Narnia efst í Bandaríkjunum – The Tourist í öðru sæti

Þriðja ævintýramyndin úr heimi Narníu, The Voyage of the Dawn Treader, náði efsta sætinu um nýliðna helgi í Bandaríkjunum. Var hún fyrir ofan The Tourist, stjörnusamsetningu Johnny Depp og Angelinu Jolie utan um ránsmynd sem gerist í Feneyjum. Hins vegar þótti frammistaða hvorugrar myndar vera beint stórkostlega, þar sem The Dawn Treader náði rétt um 24,5 milljónum í kassann, sem er töluvert minna en fyrri Narníumyndir náðu á sínum frumsýningarhelgum og svipað og The Golden Compass tók inn á svipuðum tíma fyrir nokkrum árum. Angelina og Johnny fengu svo um 17 milljónir í kassann, sem var einnig undir væntingum.

Myndin sem sló hins vegar algerlega í gegn um helgina var Black Swan, nýjasta mynd Darrens Aronofsky, en eftir að hafa aðeins verið sýnd í 18 bíóum um síðustu helgi var þeim fjölgað í 90 um þessa helgi, með þeim afleiðingum að myndin skaust alla leið upp í sjötta sætið, á milli Unstoppable (2967 bíó) og Burlesque (2876 bíó) með meira en 3 milljónir dollara í tekjur. Verður spennandi að fylgjast með gengi þeirrar myndar næstu vikur og mánuði.

Disney-ævintýrið Tangled varð í þriðja sæti með um 14,5 milljónir dollara, en aðsókn á hana minnkaði aðeins um 32% á milli helga og er hún þegar komin fram úr lokatölum síðustu prinsessumyndar frá Disney, The Princess and the Frog. Harry Potter and the Deathly Hallows varð svo í fjórða sæti með 8,5 milljónir og stendur heildaraðsókn á þeirri mynd nú í 257 milljónum og mun hún eiga erfitt með að ná 300 milljónum, eins og takmarkið var.

Um næstu helgi verða svo sci-fi brjálæðið TRON Legacy, gamanmyndin How Do You Know og teiknimyndin Yogi Bear allar frumsýndar á landsvísu í Bandaríkjunum. Það búast flestir við yfirburðasigri TRON Legacy, en við munum fylgjast spennt með, þar sem myndin verður ekki frumsýnd hér á landi fyrr en 26. desember – fyrir utan Kvikmyndir.is-forsýninguna þann 17. desember að sjálfsögðu!

-Erlingur Grétar