Fer í ferðalag með drykkfelldri ömmu sinni

Samfilm frumsýnir gamanmyndina Tammy í kvöld, en hún er nýjasta mynd gríndrottningarinnar Melissu McCarthy, sem síðast gerði það gott í myndinni Heat ásamt Söndru Bullock en er einnig þekkt fyrir grínmyndirnar Identity Thief og Bridesmaids auk þess að leika í gamanþáttunum Mike & Molly. Hér spreytir hún sig á handritsgerð í fyrsta skipti, en það skrifaði hún ásamt eiginmanni sínum Ben Falcone sem jafnframt leikstýrir hér sinni fyrstu mynd. Það má því segja að Tammy sé sannkallað hjónaverkefni.

tammy

Eftir að hafa misst vinnuna og komist að því að eiginmaðurinn er á kafi í framhjáhaldi ákveður Tammy að segja bara bless við allt í bili og fara í ferðalag með drykkfelldri og frekar óheflaðri ömmu sinni.

Svekkt, sár og niðurlægð eftir atvinnumissinn og framhjáhald eiginmannsins ákveður Tammy að hún þurfi nauðsynlega að gera eitthvað nýtt. Án þess að vita hvert skal halda ákveður hún síðan að bjóða ömmu sinni Pearl (Susan Sarandon) með í ótímabundinn bíltúr eitthvað út í buskann. Pearl er alveg til í það enda hefur hún nægan tíma auk þess sem ferðalagið er um leið tækifæri fyrir hana til að detta í það, en slík tækifæri lætur hún helst ekki fram hjá sér fara. Saman halda þær svo af stað á bíl sem gerir sig líklegan til að geyspa golunni hvað úr hverju. En þegar Tammy ákveður að ræna skyndibitastað og fá sér böku í leiðinni fara hlutirnir að gerast.

Með önnur veigamikil hlutverk í myndinni fyrir utan þær Melissu McCarthy og Susan Sarandon fara þau Dan Aykroyd, Kathy Bates, Allison Janney, Toni Collette, Sandrah Oh, Mark Duplass og Gary Cole.

Tammy verður sýnd í Sambíóunum Álfabakka, Kringlunni, Egilshöll, Akureyri og Keflavík