Dauðinn allt um kring í Rambo: Last Blood stiklu

„I´ve lived in a world of death,“ eða, „Ég hef lifað í heimi þar sem dauðinn er allt um kring“, segir Sylvester Stallone í fyrstu stiklu úr Rambo: Last Blood, en leikarinn er nú mættur rétt eina ferðina í hlutverki hins eitiharða sérsveitarmanns, John Rambo. Serían hófst árið 1982 með myndinni Rambo: First Blood, og er þessi nýja mynd því sú fimmta í röðinni.

Rambo horfist í augu við fortíðina.

Stallone náði að endurvekja Rocky seríuna með hliðarsporinu Creed árið 2015, sem leikstýrt var af Ryan Coogler, en tekjur þeirrar myndar námu 170 milljónum dala. Það gaf tilefni til framleiðslu myndar númer tvö, Creed II. en Stallone fékk tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í þeirri mynd. Nú er spurningin hvort að Stallone geti leikið sama leikinn með Rambo, og gefið seríunni nýtt líf.

Rambo: Last Blood fjallar um fyrrum Víetnamhermanninn, og sérsveitarmanninn John Rambo, sem heldur nú í eina hættuförina enn, nú til Mexíkó þar sem eiturlyfjabarónar fá að kenna á því.

Ásamt Stallone leika í myndinni þau Adriana Barraza, Paz Vega ,Yvette Montreal og Sergio Peris-Mencheta, en hann fer með hlutverk eiturlyfjabarónsins.

Myndin er fyrsta Rambo myndin síðan árið 2008, en þá var Rambo , sem Stallone leikstýrði sjálfur, frumsýnd.

Handrit þessarar nýjustu Rambo myndar var skrifað af Stallone og Matt Cirulnick, og leikstýrt af Adrian Grunberg. Grunberg er þekktastur fyrir að leikstýra Mel Gibson myndinni Get the Gringo, en hefur einnig unnið sem aðstoðarleikstjóri að myndum eins og Wall Street: Money Never Sleeps, Edge of Darkness og Apocalypto.

Lionsgate framleiðslufyrirtækið mun frumsýna Rambo: First Blood þann 20. september nk. en myndin verður frumsýnd viku síðar hér á landi, eða 27. september.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og nýtt plakat þar fyrir neðan:

Stallone mundar byssuna í gervi hins grjótharða Rambo.