Stjörnufans á frumsýningu Sveppa og dularfulla hótelherbergisins

Barnastjörnur og ýmsir vinsælir karakterar munu verða viðstaddir frumsýningu myndarinnar Sveppi og dularfulla hótelherbergið núna á fimmtudaginn 9. september. Auk þess ætlar Sveppi sjálfur að vera viðstaddur morgunsýningu á myndinni á laugardags- og sunnudagsmorgun kl. 10 báða dagana.
Myndin verður frumsýnd í þrívídd(3D) og tvívídd (2D) í Sambíóunum Álfabakka kl.18:45.
Í fréttatilkynningu frá SAM bíóunum segir að af því tilefni muni verða mikið um dýrðir: „Af því tilefni verða hinar sívinsælu stórstjörnur Sveppi, Villi, Gói, Lína Langsokkur, Karíus og Baktus, Mikki Refur, Skoppa og Skrítla ásamt Guðlaugu Elísabetu Ólafsdóttir og Pétri Jóhanni á frumsýningunni, gestum og gangandi til ánægju, en óhætt er að fullyrða að allir þessir aðilar hafa skipað stóran sess í hugum ungra Íslendinga í gegnum árin. Þess að auki viljum við vekja sérstaka athygli á því að Sambíóin hyggjast vera með morgunbíó laugardaginn 11. sept. og sunnudaginn 12. sept. kl. 10:00 í Sambíóunum Álfabakka þar sem Sveppi sjálfur verður viðstaddur og tekur á móti ánægðum bíógestum,“ segir í tilkynningunni.
Sveppi og Dularfulla Hótelherbergið er fyrsta leikna þrívíddarmyndin sem gerð hefur verið á Norðurlöndum samkvæmt tilkynningunni: „… og má því segja að leikstjórinn Bragi Þór sé ekki einungis að brjóta blað í íslenskri kvikmyndasögu heldur einnig kvikmyndasögu Norðurlandanna en öll eftirvinnsla þessarar kvikmyndar fór fram hérlendis.
Myndin verður sýnd á ótrúlegum fjölda sýningarstaða en fáar myndir ef einhverjar hafa verið frumsýndar jafn víða á Íslandi samdægurs. Sýningarstaðirnir verða eftirtaldir; Reykjavík (Sambíóin Álfabakka 2D&3D/Kringlunni 3D), Selfoss (Sambíóin Selfossi 2D), Keflavík (Sambíóin Keflavík 2D), Akureyri (Sambíóin Akureyri 3D), Ísafjörður 2D, Patreksfjörður 2D, Seyðisfjörður 2D, Sauðárkrókur 2D, Ólafsvík 2D, Grundarfjörður 2D.“