Kvikmyndir.is mælir með

Hvaða mynd á að sjá í bíó í kvöld? Það fer auðvitað allt eftir því með hverjum maður er að fara og hvað maður er stemmdur í.  Kvikmyndir.is mælir með þessum myndum:

Fyrir þá sem vilja sannar tilfiningar

Lion

Lion er hjartnæm saga um dreng sem týnist og er ættleiddur til Ástralíu, og fer síðan að leita upprunans eftir að gamla lífið fer að rifjast upp fyrir honum 20 árum síðar. Þetta er mynd um djúpa bræðraást, um mismunandi menningarheima, um fjölskyldur, um týnd börn, tilfinningar, erfiðleika og persónueinkenni. Það er óhætt að segja að menn verða klökkir ítrekað á meðan á sýningu myndarinnar stendur, enda er sagan ótrúlega falleg og mögnuð.

Leikurinn er einnig í sérflokki, sem og kvikmyndatakan, og maður nýtur þess sérstaklega að upplifa Indland sérstaklega, sem og Tansaníu í gegnum auga linsunnar.

Fyrir þá sem vilja meiri tíma

Arrival

Það góða við Arrival er að hún hverfur ekki úr huga manns strax og farið er út úr bíósalnum – hún skilur mann eftir með spurningar um lykilatriði tilveru okkar, tímann og mikilvægi þess að njóta stundarinnar. Hún gerir það auk þess með flottum hætti, og púslin raðast saman eftir því sem líður á myndina.

Myndin fjallar um málvísindamann sem Amy Adams leikur, sem er fengin til að reyna að eiga samskipti við geimverur sem eru komnar til jarðar og hafa parkerað skálalaga geimförum sínum á 12 stöðum á Jörðinni, þar á meðal í Bandaríkjunum. Þær sýna enga árásargirn, en opna geimför sín reglulega svo menn geti svifið þar inn og átt við þær samskipti. Í myndinni er fylgst með tilraunum Adams til að koma á samtalinu, og hún kemst fljótt á sporið. Maður áttar sig reyndar ekki alveg á hve lengi hún er að læra tungumál þeirra, manni finnst það kannski gerast grunsamlega hratt, miðað við hvað það er hrikalega flókið, en það truflar mann þó ekki mikið. Eftir hlé fara hlutir síðan að gerast sem virkilega gera það þess virði að sjá myndina, og aftur er það tíminn sjálfur og skynjun hans sem er í aðalhlutverki. Leikarar standa sig með prýði. Herforinginn, sem Forest Whitaker leikur á ískaldan hátt, er undir mikilli pressu að finna leið til að komast að tilgangi geimveranna á Jörðinni, sem og leyniþjónustumaðurinn, sem kemst næst því að vera vondi kallinn í myndinni. Auk þess eru óeirðir víða um heim, og aðrar þjóðir líklegar til að klúðra málum illilega. Að lokum verður að minnast á tónlist Jóhanns Jóhannssonar sem er einn af stóru plúsunum við myndina.

Fyrir þá sem vilja fullkomnun

The Accountant

Ef maður ætti að líkja aðalpersónunni í The Accountant við einhverja aðalpersónu annarrar myndar, þá dettur manni strax í hug persóna Liam Neeson í Taken. Stundum er ákveðin hvíld í því að fá að fylgjast með svona ofurmannlegri aðalpersónu, sem maður veit að er einfaldlega ósigrandi nagli og mun nær örugglega ekki fá á sig skrámu alla myndina. Endurskoðandinn, sem Ben Affleck leikur, er auk þess einhverfur, sem gerir öll samskipti mjög einföld og hreinskiptin, enda eru þau öll lærð. Og verkefnin leysir hann af stakri fagmennsku og algjörlega án þess að hafa samviskubit yfir einu né neinu, enda minnir hann meira á vélmenni en mann.

Í myndinni er í sjálfu sér ekkert rosalegt illmenni – fyrirtækið, sem vonda fólkið vinnur hjá, er meira að segja að framleiða gervilimi ( eins og íslenska fyrirtækið Össur ) en eitthvað er þó bogið við bókhaldið hjá þeim ….

Stórar byssur, fjölskyldudrama, hefnd, heiður, harkalegar uppeldisaðferðir og smá innsýn ( hversu áhugavert sem það er fyrir fólk ) í bókhaldsbrellur, gera þessa mynd þess virði að sjá hana.

Fyrir þá sem vilja litríka hamingjubombu

Tröll

Teiknimyndin Tröll er kynnt sem litrík fjölskylduskemmtun og þar er svo sannarleg engu logið. Sá sem þetta ritar er fullorðins, og var í fyrstu efins um að Lukkutröllin litríku myndu ná að halda athygli hans í 90 mínútur, en myndin kom að því leiti ánægjulega á óvart. Myndin fer nefnilega svo skemmtilega og algjörlega yfir strikið í krúttlegheitum, knúsi, og ást og hamingju, og það er gert á svo sniðugan hátt, að fullorðnir og börn ná að skemmta sér vel saman allan tímann.

Sagan er í sjálfu sér kunnugleg. Litlu litríku og krúttlegu tröllin búa við þá hrikalegu ógn að forljótu og risastóru Böggarnir halda árlega svokallaða Tröllatíð, þar sem þeir fara í tröllatréð sem er í miðju Böggalandinu, og ná sér í tröll til að éta ( nokkuð grimmilegt og í anda gömlu ævintýranna ) enda telja Böggarnir að þeir geti ekki orðið hamingjusamir nema þeir fái tröll að borða. En Tröllin finna undankomu leið og flýja, og næstu 20 árin þumbast Böggarnir áfram án þess að fá að gæða sér á tröllum, þar til dag einn að Tröllin gleyma sér í gleðinni og Böggarnir finna þá, fanga þá og fara með í höllina.

Það sem vakti sérstaka athygli við myndina er frábær tækni – og teiknivinna. Fönduráferð er á öllum persónum, sem er undirliggjandi þema, enda er föndur mjög krúttlegt. Þá voru bráðskemmtilegar aukapersónur eins og Skýið, og einnig var gaman að sjá tilvísanir í aðrar bíómyndir og ævintýri, en þar má nefna ET, Öskubusku, Hans og Grétu. Þá var íslensk þýðing vel af hendi leyst, og tónlistin skemmtileg.

Fyrir þá sem vilja stórslysamyndir: 

Deepwater Horizon

Stórslysamyndir eiga sér fastan sess í kvikmyndasögunni, og reglulega koma út slíkar myndir – og ekki skemmir ef þær eru byggðar á sannsögulegum atburðum eins og Deepwater Horizon er.

Myndin dregur nafn sitt af samnefndum olíuborpalli BP olíufyrirtækisins á Mexíkóflóa og fjallar um atburðina þar árið 2010, þegar sprenging varð um borð með þeim afleiðingum að 11 manns létu lífið og 16 slösuðust, auk þess sem mikið umhverfisslys varð þegar olía fór í flóann.

Það er skemmst frá því að segja að sagan er sögð af mikilli festu og öryggi. Myndin hefst heima hjá persónu Mark Wahlberg, sem er hamingjusamlega giftur og á eina dóttur. Hann vinnur á borpallinum sem viðhaldsstjóri, og er á leið í 21 daga úthald á pallinum. Pallurinn er greinilega orðinn hálf lasburða, en verkefni Wahlberg og Kurt Russell, sem leikur yfirmanninn á pallinum, er að undirbúa pallinn undir olíudælingu, sem aðrir aðilar koma til með að sjá um ( þ.e. ef allt hefði farið að óskum ). Við sögu koma einnig fulltrúar BP olíurisans, sem eru „vondi kallinn“ í sögunni, enda alltaf að reyna að græða peninga!

Wahlberg, Russell og Kate Hudson, sem leikur eiginkonu Wahlberg, leysa sín hlutverk vel af hendi, en það er gamli góði John Malkovich sem kemur mest á óvart í hlutverki fulltrúa BP, og er ekki sami ísmeygilegi þorparinn eða karakterinn sem maður hefur svo oft séð hann leika – hér bregður fyrir aðeins nýjum tón í túlkun hans.

Tæknibrellur eru flottar og leikstjóranum Peter Berg tekst að byggja upp talsverða spennu með tilheyrandi hljóðum og eldglæringum.

Fyrir þá sem vilja sjá sannsögulegar myndir: 

War Dogs.

Það sem er gott við War Dogs er að sagan er áhugaverð en ótrúleg á sama tíma, en umfram allt er myndin góð skemmtun, enda er hún eftir sama leikstjóra og gerði Hangover þríleikinn, Todd Philips. Tveir félagar sem fara að bjóða í opin ríkisútboð á vopnasölusamningum byrja að gera það gott með því að taka litla bita hér og þar, þar til þeir reka augun í stórt útboð þar sem eru meiri peningar í boði en nokkru sinni fyrr. Þeir bjóða í verkefnið og fá samninginn, enda langtum ódýrari en allir aðrir.

Aðalleikararnir, þeir Miles Teller og Jonah Hill eru góðir í hlutverkum sínum sem ungu vopnasalarnir, og Bradley Cooper er flottur sem gaurinn sem hjálpar þeim við stóra samninginn. Maður spyr sig samt hvort að endirinn sé Hollywood endir, eða hvort hann sé í samræmi við blaðagreinina sem myndin er byggð á …

Sully

Ef þig langar að sjá spennutrylli, þá er Sully líklega ekki rétta myndin, en fyrir þá sem vilja sjá trúverðuga frásögn af því sem gerðist þegar flugstjórinn Chesley B. Sullenberger lenti á Hudson ánni í New York, og allir björguðust, er Sully rétta myndin. Myndin færir mann nær atburðinum, en auðvitað er það pínu anti-climax hve dramalaus björgunin á ánni var – en svona getur raunveruleikinn verið!


Fyrir þá sem vilja hlæja

Bridget Jones´s Baby

Það er nokkuð um liðið frá síðustu Bridget Jones mynd og maður var pínu efins hvort að nýja myndin yrði jafn fyndin og þær tvær á undan, en Bridget Jones´s Baby svíkur ekki og er bráðfyndin. Breskur húmor nær einhvern veginn alltaf að vera óvæntur og margræður, og sagan er aldrei alveg fyrirsjáanleg, og endirinn skilur mann eftir smá með spurningu í kollinum, sem er alltaf gott – þ.e. að láta hrista aðeins upp í hausnum á manni. Það að nota forríkan Bandaríkjamann með stefnumótavefsíðu er skemmtilegur snúningur, og góðkunningjar úr fyrir myndum, sem og aðalleikararnir, þau Zellweger, Firth og Dempsey, eru öll sjarmerandi og skemmtileg.


Fyrir þá sem vilja spennudrama

Eiðurinn

Eiðurinn er alvöru spennutryllir og drama, og það sem meira er; hún er íslensk! Eiðurinn segir frá hjartalækni sem tekur til sinna ráða þegar dóttir hennar byrjar með dópsala, sem er allt annað en draumatengdasonurinn og sýnir ögrandi og ógnandi framkomu. En dóttirin elskar hann, og hvað gerir pabbi þá!

Senan í sumarbústaðnum stendur upp úr og það er ánægjulegt og óvænt að sjá hve langt Baltasar gengur í úrlausn mála, en einhvernveginn meikar þetta allt sens í lokin.


Fyrir fjölskylduna

Middle School: The Worst Years of my Life

Middle School: The Worst Years of my Life blandar saman leik og teiknimyndum á skemmtilegan hátt. Aðalsöguhetjan er flinkur teiknari, sem hefur flakkað á milli miðskóla, og virðist hafa komið sér allsstaðar í vandræði, þó ekki sé farið nánar út í þá sálma ( drengurinn er reyndar ósköp ljúfur á alla lund og erfitt að trúa því að hann láti reka sig úr hverjum skólanum á fætur öðrum – en hvað um það ).  Handritið er skemmtilegt, og þó að staðalmyndir komi við sögu, eins og leiðinlegi kærasti mömmunnar og skólastjórinn, þá er myndin alls engin klisja heilt yfir og býður upp á smá óvæntan snúning undir lokin.