Hvalfjörður má keppa um Óskar 2015

The 21st Annual Hamptons International Film Festival Closing DayÁ undanförnum dögum hefur stuttmyndin Hvalfjörður verið að gera það gott, en hún hefur verið valin besta stuttmyndin á þremur virtum alþjóðlegum kvikmyndahátíðum.

Í tilkynningu frá Sagafilm segir að myndin hafi unnið Golden Starfish verðlaunin  á Hamptons hátíðinni í Bandaríkjunum og þar með sé hún orðin gjaldgeng fyrir tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir bestu leiknu stuttmyndina árið 2015. Einnig var hún valin besta stuttmyndin á Film Fest Gent hátíðinni í Belgíu en með þeim sigri hlaut hún tilnefningu til Evrópsku Kvikmyndaverðlaunanna 2014. Síðast en ekki síst var Hvalfjörður valin besta leikna stuttmyndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Varsjá í Póllandi sem lauk um helgina. Kvikmyndahátíðin í Varsjá telst til svokallaðra „A“ hátíða.

Í umsögn dómnefndar alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Varsjá segir: „Hvalfjörður hlýtur verðlaun fyrir framúrskarandi kvikmyndatjáningu á mannlegum samskiptum, með ákaflega athugulli leikstjórn og eftirtektarverðri frammistöðu leikara”.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Guðmund Arnar leikstjóra með verðlaunin sem Hvalfjörður hlaut á Hamptons kvikmyndahátíðinni.

Hvalfjörður hlaut sérstök dómnefndarverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrr á árinu.