Kvikmyndagagnrýni: The Incredible Burt Wonderstone

Einkunn: 2/5

KvikmyndinThe Incredible Burt Wonderstone kom í kvikmyndahús á Íslandi um liðna helgi og skartar þeim Steve Carrell, Steve Buscemi, Jim Carrey og Olivia Wilde í aðalhlutverkum. Þeir Steve Carrell og Jim Carrey hafa einu sinni komið saman í kvikmynd en það var í kvikmyndinni Bruce Almighty. Það var því spennandi að sjá þessa tvo skemmtilegu og vinsælu gamanleikara koma saman á ný. Leikstjóri myndarinner er Don Scardino en þetta er fyrsta alvöru kvikmyndin sem hann leikstýrir en hann á aftur á móti langan og farsælan feril sem sjónvarpsþáttaframleiðandi og leikstjóri.

The Incredible Burt Wonderstone fjallar um æskuvinina Burt (Carrell) og Anton (Buscemi) sem starfa sem töframenn á flottu hóteli í Las Vegas. Þar hafa þeir félagarnir starfað saman í 10 ár við góðan orðstír en það má þó sjá að frægðin hefur stigið Burt til höfuðs og hann hagar sér því eins og algjör prímadonna sem eingöngu gerir þetta fyrir peningana og virðist hafa misst alla ástríðu fyrir göldrum. Þá gætir hann þess ávallt að æskuvinur sinn Anton sé í bakgrunni og að sýningin snúist að mestu leyti um hann sjálfan. Þegar svo nýr töframaður, Steve Gray (Carrey), kemur í bæinn með ótrúleg töfrabrögð sem fela í sér miklar líkamlegar raunir, dregur það úr vinsældum þeirra Burt og Anton. Þegar þeir félagarnir reyna svo fyrir sér með nýju töfrabragði sem endar skelfilega fyrir þá, slitnar upp úr vinskap þeirra og jafnframt missa þeir vinnu sína. Hefst þá leit Burt að nýrri vinnu, nýjum brögðum, nýjum félaga og á heildina litið, leit að sjálfum sér.

Þó svo að myndin hafi átt nokkra spretti sem hægt var að hlæja að nær hún engan veginn þeim hæðum sem góðar gamanmyndir ná. Steve Carrell og félagar reyna að gera það besta úr handritinu en það er alltaf erfitt að matreiða góðan grjónagraut með útrunna mjólk. Handritið er þannig helsti akkilesarhæll myndarinnar og tekst ekki á nokkurn hátt að skapa samkennd eða nokkrar aðrar tilfinningar meðal áhorfenda, gagnvart karakterunum.  Þá reynir handritið að koma einhverri rómantík inn í söguna, með hjálp Olivia Wilde, en þróun sambandsins milli hennar og Burt (Carrell) var álíka trúverðugt og kosningaloforð stjórnmálaflokkanna í aðdraganda Alþingiskosninga. Eins og áður segir bjarga þeir Steve Carrell og Jim Carrey, með smávægilegri hjálp frá Alan Arkin, þó því sem bjargað verður en aftur á móti hafa Olivia Wilde og Steve Buscemi átt betri daga.

Á heildina litið skortir The Incredible Burt Wonderstone þá töfra sem góðar gamanmyndir búa yfir og því miður virðist hafa þurft töluvert betri galdramann en leikstjórann Don Scardino til að gera eitthvað meira úr því lélega handriti sem lá til grundvallar myndinni. Það er ansi líklegt að aðdáendur Jim Carrey og Steve Carrell verði fyrir vonbrigðum með myndina og eflaust bara betra fyrir þá að sitja heima og taka annan snúning á Ace Ventura eða The Office.