The Shining og Shawshank sýndar um helgina

Nú um helgina hefjast sýningar í Sambíóunum á tveimur ólíkum perlum sem sprottnar eru úr hugarheimi rithöfundarins Stephen King. Gefst þá bíógestum tækifæri til að upplifa The Shining frá 1980 og The Shawshank Redemption (1994) í kvikmyndasal. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sambíóunum og er verðið 1000 krónur á sitthvora myndina. Að svo stöddu er einungis opið í Álfabakka hjá Sambíóunum og verða myndirnar sýndar þar.

Ber að geta að The Shining fagnar 40 ára stórafmæli þann 23. maí (laugardaginn) og eru rúm 25 ár síðan The Shawshank Redemption var fyrst gefin út.

The Shining er án efa ein af virtari og umtalaðri hrollvekjum kvikmyndasögunnar og kemur úr smiðju Stanleys Kubrick. Maður, sonur hans og eiginkona ráða sig til vetrardvalar sem húsverði á einangrað hótel þar sem Danny, sonurinn, fer að sjá óhugnanlega hluti úr atburðum sem gerðust á hótelinu í fortíðinni, en hann býr yfir yfirnáttúrulegri náðargáfu sem þekkt er sem „The Shining“.

Faðirinn, Jack Torrance, er rithöfundur og er með verk í vinnslu, en verður fljótt geðveikur vegna innilokunarkenndar og af völdum drauga úr fortíð hótelsins. Eftir að hafa verið sannfærður af draugi þjóns, um að það þurfi að „leiðrétta“ fjölskylduna, þá gengur Jack gjörsamlega af göflunum. Það eina sem getur nú bjargað Danny og móður hans er náðargjöf drengsins.

The Shawshank Redemption segir annars vegar frá Andy Dufresne, ungum og efnilegum bankamanni. Líf hans breytist skyndilega þegar hann er fundinn sekur um morðið á eiginkonu sinni og elskhuga hennar, og dæmdur í lífstíðarfangelsi. Myndin gerist á fimmta áratug síðustu aldar og sýnir hvernig Andy, með hjálp vinar síns Red, athafnamannsins í fangelsinu, reynist verða mjög óvenjulegur fangi.

Myndin er skrifuð og leikstýrð af Frank Darabont (The Green Mile, The Mist) og trónir enn þann dag í dag efst á topplista IMDb yfir 250 bestu kvikmyndir allra tíma – að mati notenda.