Handtóku Stormsveitarmann á hátíðisdegi Star Wars-unnenda

Eins og glöggir vita hefur dagurinn 4. maí fest sig í sessi sem alþjóðlegur hátíðisdagur Star Wars-aðdáenda um allan heim. Dagsetningin var fyrst stimpluð formlega árið 2011 og með aðstoð veraldarvefsins orðið að sameiningartákni aðdáenda, um allan heim og út fyrir vetrarbrautina.

Lögreglan í Alberta-fylki í Kanada virðist hafa misst af minnispóstinum um alþjóðlega dag Star Wars-nörda því nú í vikunni var kona handtekin fyrir að spóka sig í búningi Stormsveitarmanns. Ljóst var að leikfangabyssan féll ekki í kramið hjá lögregluþjónunum og vegfarendum.

Fréttavefurinn TMZ greindi meðal annars frá málinu en þar segir að umrædd kona hafi verið starfsmaður á nálægum bar sem ákvað að slá á létta strengi á hátíðisdeginum mikla. Vegfarendur og aðrir gestir sem þekkja ekki til Stjörnustríðs voru þó ekki lengi að tilkynna vopnaða einstaklinginn til lögreglu og voru þjónar ekki lengi að mæta á vettvang.

Konan í Stormsveitarbúningnum er sögð hafa verið samvinnuþýð í þessum óvenjulegu aðstæðum. Hún var fljót að kasta frá sér vopninu en handtakan náðist á myndband – og hefur vissulega vakið athygli netheima. Hermt er að lögregluþjónar hafi beitt afli og endaði konan með blóðnasir eftir að höfuð hennar hafi verið þrýst á gangstéttina.