Ingvar fór í prufu fyrir Star Wars: „George Lucas hafði ekki efni á mér“

Ingvar E. Sigurðsson, einn þekktasti leikari Íslands, fór í prufu fyrir Star Wars kvikmynd. Þetta var árið 1997 og stóð þá til að sækjast eftir stórri rullu fyrir The Phantom Menace, sem beðið var eftir með gífurlegri eftirvæntingu á þessum tíma.

Leikarinn flaug til London að lesa línurnar fyrir Sith-lávarðinn Darth Maul, sem er án efa vinsælasti karakter myndarinnar og oft sagður vera mesti töffari hennar. Eins og mörgum er könnugt var það áhættuleikarinn Ray Park sem var ráðinn í hlutverk Maul, þó Peter Serafinowicz hafi ljáð persónunni rödd sína.

Nýverið rifjaði Ingvar upp prufuna þegar hann var staddur á pallborðsumræðu í Bíó Paradís á vegum miðstöðvarinnar Reykjavík Creative Hub þar sem hann rifjaði upp prufuna. Þeir Atli Óskar Fjalarsson og Elías Helgi Kofoed-Hansen saman standa að miðstöðinni, sem í grunninn er hugsuð fyrir upprennandi listafólk jafnt og áhugafólk um hina ýmsu vinkla kvikmyndagerðar.

Sérhver hittingur felur í sér mismunandi þema. Á fyrsta hittingi mættu til dæmis þau Baldvin Z og Silja Hauksdóttir til að stýra umræðum um leikstjórn, þau Lilja Ósk Snorradóttir og Anton Máni Svansson sáu um framleiðsluhliðina og ræddu þau Ingvar E. og Lára Jóhanna Jónsdóttir leiklistarferlið nýverið frá sínu sjónarhorni og ýmsar hliðar þess.

Að pallborðsumræðum loknum gefst áhorfendum í sal kostur á því að spyrja fagfólkið út í allt hið mögulega.

Ingvar segir The Phantom Menace hafa verið fyrsta erlenda verkefnið sem bauðst honum og hafi þetta allt gerst fyrir tilviljun, en Ingvar er ekki mikill Star Wars aðdáandi sjálfur þó hann hafi ekki verið ósáttur með tækifærið.

„Fyrsti aðstoðarleikstjórinn var kunnugur íslenskum myndurum. Hann var giftur íslenskri konu og hafði séð svo mikið af myndum héðan og benti á mig,“ segir Ingvar og vísar í Christopher Newman, þaulreyndan aðstoðarleikstjóra til fjölda ára. Newman hefur meðal annars komið að stórvinsælum þáttum á borð við Band of Brothers og Game of Thrones, auk kvikmynda eins og Notting Hill, Love Actually, Mamma Mia, EuroTrip og Return of the Jedi.

Hermt er að prufa Ingvars fyrir Darth Maul hafi afar gengið vel en þá kom í ljós að ráðning Ingvars hefði ekki svarað kostnaði. „Ég var næstum því kominn með hlutverkið en George Lucas hafði ekki efni á mér, eins og hann sagði mér. Ástæðan er sú að hann hefði þá þurft að borga fyrir mig svokallaða „stunt-tryggingu,“ þannig að hann réð í staðinn áhættustjórnanda (e. „stunt coordinator“), sem verður að tryggja sig sjálfan,“ segir Ingvar.

Má þess geta að Ingvar var ekki fyrsti Íslendingurinn sem kom til greina fyrir sömu Star Wars mynd. Leikkonan Álfrún Örnólfsdóttir (Dís) var á meðal margra þúsunda stúlkna sem framleiðendur íhuguðu að ráða í hlutverk Padmé Amidala, hlutverkið sem Natalie Portman hreppti á endanum.

Búast má við því að pallborðsumræðurnar í heild sinni verði aðgengilegar á hlaðvarpsrás Reykjavík Creative Hub á næstu dögum.