Stór geislabardagi skorinn niður í Star Wars mynd

Eitt af því sem aðdáendur Star Wars ræða hvað mest í hverri Stjörnustríðskvikmynd, eru bardagaatriði með geislasverðum, og skiptir þá einu hvort að þar séu Obi-Wan Kenobi og Qui Gon Jinn að berjast við Darth Maul í The Phantom Menace, Anakin Skywalker að berjast við Obi-Wan í Revenge of the Sith, eða Logi geimgengill að berjast við Svarthöfða í lokin á Return of the Jedi.

Geislasverðin eru öflug vopn.

Nú hefur áhættuatriða hönnuðurinn Nick Gillard leyst frá skjóðunni um mál þessu tengt, en hann sá um að útfæra bardagaatriðin í forsögu-þríleiknum svokallaða. Hann segir að leikstjórinn George Lucas, hafi klippt burt geggjaða senu úr Star Wars: Revenge of the Sith, þar sem Ewan McGregor berst við sex í einu, þ.e. við Grievous hershöfðingja og lífverði hans.

Flóknasti bardaginn

Gillard segir í samtali við vef Entertainment Weekly að þetta hafi verið flóknasti bardagi sem þeir hafi framkvæmt. „Og George [ Lucas ] sagði, „Mér þykir fyrir því, en ég ætla að láta gám detta á fimm þeirra.“

Ennfremur sagði Gillard að McGregor hafi æft vikum saman til að læra allar réttu hreyfingarnar fyrir atriðið, áður en tíminn sem þeir höfðu til kvikmyndatöku rann út. Það var einmitt ástæðan, að hans sögn, fyrir því að Lucas ákvað að klippa senuna til, og drepa lífverði Grievous, með því að láta Obi-Wan kremja þá með því að sleppa gám á þá.