Bond í mynd Star Wars leikstjóra

James Bond leikarinn Daniel Craig hefur skrifað undir samning um að leika aðalhlutverkið í nýjustu kvikmynd Rian Johnson, en það verður fyrsta mynd Johnson frá því hann gerði Star Wars myndina The Last Jedi. Söguþráður kvikmyndarinnar virðist vera einskonar nútímaútgáfa af morðgátu í stíl við sögur Agatha Christie.

Í frásögn kvikmyndavefjarins Deadline af málinu segir að Craig muni leika aðal rannsóknarlögreglumanninn í kvikmyndinni Knives Out, en Johnson skrifaði einnig handritið. Myndinni er líst sem dæmigerðri „Hver gerði það“ mynd, og gerist í samtímanum.

Tökur eiga að hefjast í nóvember, eða áður en Johnson byrjar á næsta Star Wars verkefni.

Knives Out verður ekki fyrsti spennutryllir Johnson, því áður hefur hann gert Brick, sem var nútímaleg svart-hvít glæpamynd.

Í samtali við Deadline sagði Johnson að hann hefði haft þráhyggju fyrir sögum Agatha Christie síðan hann var táningur, og hefði eytt síðustu tíu árum í að búa til sína eigin sígildu morðgátu.