Star Wars vinsælasta jólamyndin

Flestir bíógestir á Íslandi gerðu sér ferð á Star Wars: The Last Jedi yfir síðustu helgi. Alls sáu tæplega 3.400 manns myndina föstudaginn 22. desember og á Þorláksmessu. Öll kvikmyndahús á Íslandi voru svo lokuð á aðfangadag. Rúmlega 37 þúsund manns hafa séð myndina hér á landi síðan hún var frumsýnd. Þetta kemur fram á nýjum lista yfir aðsóknarmestu myndirnar í kvikmyndahúsum landsins.

Star Wars: The Last Jedi er áttundi kaflinn í þessari stærstu kvikmyndaseríu allra tíma sem er að þessu sinni leikstýrður af Rian Johnson. Í myndinni heldur Rey á vit ævintýranna ásamt Luke Skywalker, Leiu prinsessu og hinum dyggu Poe og Finn þar sem þau eiga eftir að uppgötva leyndardóm kraftsins og fortíð sem var þeim hulin. Með helstu hlutverk fara Daisy Ridley, Oscar Isaac, Gwendoline Christie, John Boyega, Carrie Fisher, Adam Driver og Mark Hamill.

Í öðru sæti listans eru pabbarnir í Daddy’s Home 2. Í gamanmyndinni hafa þeir Dusty og Brad ákveðið að taka höndum saman um að halda hin fullkomnu jól fyrir börnin. Það reynir hinsvegar á þessa nýtilkomnu vináttu þeirra þegar pabbi Dusty, sem er karlremba og allur af gamla skólanum, og hinn ofurblíði og tillitssami pabbi Brad, mæta á svæðið og hleypa öllum undirbúningi í uppnám. Með aðalhlutverk fara Will Ferrell, Mark Wahlberg, Mel Gibson og John Lithgow.

Teiknimyndin Coco situr í þriðja sæti listans. Myndin segir frá hinum músíkalska Miguel sem þráir að verða tónlistarmaður eins og Ernesto de la Cruz sem var álitinn stórkostlegasti gítarleikari og söngvari Mexíkó á sínum tíma. Vandamálið er að fjölskylda Miguels lítur á tónlist sem bölvun á ættinni og bannar hana alfarið í sínum húsum.