Sýna Star Wars og flytja tónlistina með

Á bíótónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í næstu viku mun hljómsveitin flytja tónlist John Williams sem hann samdi fyrir fyrstu Stjörnustríðsmyndina, Star Wars: A New Hope, og verður myndin sjálf sýnd einnig á tónleikunum sem fram fara í Eldborg í Hörpu, 3., 4. og 5. apríl nk.

Eins og segir á vef hljómsveitarinnar er Stjörnustríð eða Star Wars ein frægasta kvikmyndasyrpa allra tíma. „Fyrsta myndin, frá árinu 1977, sló strax í gegn og má segja að ekkert lát hafi orðið á vinsældunum síðan. Nú eru myndirnar alls orðnar átta og sagan sem þar er sögð er ævintýralegri en nokkurn óraði fyrir í upphafi.“

John Williams hefur samið tónlistina við allar Stjörnustríðsmyndirnar, eins og segir á vef Sinfóníuhljómsveitarinnar. „Litrík og glæsileg tónlistin á stóran þátt í vinsældum myndanna enda hefur Williams sópað til sín verðlaunum fyrir tónlistina. Alls notar hann um 50 stef sem snúa aftur og tengjast ákveðnum persónum eða kringumstæðum, rétt eins og Richard Wagner gerði í óperum sínum meira en 100 árum fyrr.“

Í upphaflegu myndinni lék Sinfóníuhljómsveit Lundúna tónlistina.

https://www.facebook.com/IcelandSymphony/videos/654565708315791/
Hornið nær Svarthöfða ótrúlega vel!

Kvikmyndin er sýnd með íslenskum texta og er áætlaður sýningartími tveir og hálfur klukkutími með hléi. Um tónsprotann heldur hljómsveitarstjórinn Ted Sperling.

https://www.facebook.com/IcelandSymphony/videos/370006473600644/
Geislasverðið kemur hér að góðum notum.