Star Wars 7 í tökur í byrjun 2014

J.J. Abrams, leikstjóri næstu Star Wars myndar, Star Wars 7, segir að tökur myndarinnar hefjist í byrjun næsta árs. „Við munum líklegast flytja okkur til London í lok þessa árs útaf Star Wars,“ sagði Abrams á ráðstefnunni Produced By hjá 20th Century Fox kvikmyndaverinu. Abrams bætti við að það ætti eftir að  „gera hann geðveikan“ að taka myndina utan Bandaríkjanna, en sjálfur hefði hann kosið að taka hana á heimavelli, eða í Los Angeles í Bandaríkjunum.

jj abrams

Hann sagði að London hefði verið valin sem tökustaður myndarinnar áður en hann var ráðinn sem leikstjóri. Hann sagði í gríni að boð um að leikstýra Star Wars væri  það eina sem hefði getað fengið hann til að fresta löngu ákveðnu fríi með fjölskyldunni.

Abrams sagði þetta í spjalli á laugardag þar sem hann ræddi við framleiðanda Django Unchained, Reginald Hudlin, á þessari fimmtu árlegu ráðstefnu Fox kvikmyndaversins.

Frumsýning Star Wars 7 er áætluð 2015, og tvær myndir til viðbótar eiga að koma á tveggja ára fresti eftir það.