Spider-Man spyrst vel út

Það er greinilegt að hin stórgóða Golden Globe verðlaunaða teiknimynd Spider-Man: Into the Spider Verse er að spyrjast vel út, en myndin er nú komin á topp íslenska bíóaðsóknarlistans á sinni fimmtu viku á listanum, en myndin var í öðru sæti í síðustu viku.  Í myndinni koma við sögu nokkrir mismunandi köngulóarmenn úr ólíkum víddum, sem þurfa að berjast saman gegn hræðilegum þorpurum.

Aquaman, toppmynd síðustu vikna, þarf því að gera sér annað sætið að góðu þessa vikuna, en það sama er uppi á teningnum í Bandaríkjunum þar sem endurgerðin á frönsku kvikmyndinni Intouchables, The Upside, með Kevin Hart og Bryan Cranston, fór rakleiðis á topp bandaríska listans.

Í þriðja sæti íslenska listans er svo Golden Globe sigurvegarinn Bohemian Rhapsody, en hún fer upp um fjögur sæti á milli vikna, eftir 11 vikur á listanum.

Fimm nýjar kvikmyndir eru á listanum að þessu sinni. Tryllirinn Escape Room fer beint í fjórða sætið, Green Book, sem var valin besta mynd í söngleikja- og gamanmyndaflokki á Golden Globe verðlaununum á dögunum fer beint í sjötta sæti listans, Julia Roberts myndin Ben is Back fer beint í 12. sæti listans, í 18. sætinu er það pólska dramað Zabawa, zabawa og síðast en ekki síst er það japanska kvikmyndin Shoplifters, sem fer beint í tuttugasta sæti listans.

Sjáðu bíóaðsóknarlistann í heild sinni hér fyrir neðan: