Tvær nýjar í bíó – Unlocked og Hneturánið

Spennumyndin Unlocked verður frumsýnd á föstudaginn næsta, þann 20. október, í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói, Akureyri.

Alice Racine er sérfræðingur í yfirheyrslum hjá CIA. Hún er kölluð til, til að yfirheyra meintan hryðjuverkamann en í miðju verkefninu áttar hún sig á því að yfirheyrslan sjálf er gildra, sett á svið til að veiða upplýsingar upp úr henni sjálfri. Um leið hefst óvænt atburðarás og hún kemst að því að í bígerð er að gera sýklavopnaárás á London sem myndi hafa skelfilegar afleiðingar í för með sér. Alice verður að grípa til sinna ráða, en vandamálið er að hún veit ekki lengur hverjum hún getur treyst.

Í tilkynningu frá Senu segir að Unlocked sé „þrælgóð mynd fyrir fólk sem vill spennu, hasar og fléttur.“

Leikstjórn: Michael Apted
Leikarar: Noomi Rapace, Michael Douglas og Orlando Bloom

Áhugaverðir punktar til gamans: 

-Handrit Unlocked er eftir Peter O’Brien og var árið 2008 á svarta listanum í Hollywood yfir áhugaverðustu ókvikmynduðu handritin.

-Myndin inniheldur nokkur hörkugóð hasar- og slagsmálaatriði og við tökur á einu þeirra fékk Noomi Rapace vænt högg með þeim afleiðingum að hún nefbrotnaði og vankaðist um leið. Eftir að hafa jafnað sig og í ljós kom að henni hafði ekki orðið meira meint af högginu en að nefbrotna héldu tökur áfram eins og ekkert hefði í skorist og hún lét ekki laga brotið fyrr en eftir að þeim lauk.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan og plakat þar fyrir neðan:

Hneturánið

Teiknimyndin Hneturánið 2 verður frumsýnd á föstudaginn í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói, Akureyri.

Hneturánið er ævintýramynd um sérvitran íkorna, Surlí, og vini hans. Þau komast að því að borgarstjórinn í Eikarbæ ætli sér að byggja stærðarinnar, og frekar tötralegan, skemmtigarð akkúrat þar sem almenningsgarðurinn þeirra stendur. Það er í þeirra höndum að stöðva borgarstjórann og koma í veg fyrir að heimilið þeirra verði lagt í rúst.

Myndin er sýnd með íslensku tali.

Leikstjórn: Tómas Freyr Hjaltason
Leikarar: Magnús Jónsson, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Hjálmar Hjálmarsson, Orri Huginn Ágústsson, Viktor Már Bjarnason, Þórhallur Sigurðsson, Ævar Þór Benediktsson, Vaka Vigfúsdóttir, Selma Björnsdóttir, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir og Albert Halldórsson.

Kíktu á plakat og stiklu hér fyrir neðan: