Halloween tekjuhæsta slægjan og tekjuhæsta hryllingssería

Árið 1978 setti John Carpenter ný viðmið í flokki slægjumynda svokallaðra, Slashers, með mynd sinni Halloween, með því að hala inn 70 milljónum bandaríkjadala í tekjur, en myndin varð þar með ein arðsamasta sjálfstæða kvikmynd í fullri lengd allra tíma.

Í kjölfarið fylgdi fjöldinn allur af misgóðum framhaldsmyndum og eftirhermumyndum, þar á meðal mynd Wes Craven; Scream, sem varð aðsóknarmesta slægjumyndin eftir að hún var frumsýnd, með tekjur upp á 103 milljónir dala í Bandaríkjunum og 173 milljónir dala um heim allan.

Núna hefur metið verið slegið enn á ný, því ný mynd David Gordon Green, Halloween, er orðin tekjuhæsta slægja allra tíma, með 150 milljónir dala í tekjur í Bandaríkjunum, og 229,6 milljónir um heim allan. Þetta þýðir einnig að Halloween er orðin arðsamasta hrollvekjusería allra tíma með 761 milljón dala í tekjur, þegar verðbólga er tekin með í dæmið, og fer fram úr Friday the 13th seríunni, sem hefur rakað saman 766 milljónum dala, og A Nightmare on Elm Street, með tekjur upp á 703 milljónir dala.