Syngur Adele titillag Bond á ný?

Fréttir herma að breska stórsöngkonan Adele muni endurtaka leikinn og syngja titillag nýjustu kvikmyndarinnar um spæjarann James Bond. Kvikmyndin ber heitið Bond 24 að svo stöddu og yrði þetta í annað sinn sem hún myndi syngja um njósnara hennar hátignar.

Það er aðeins vika síðan Adele hlaut Óskarsverðlaun fyrir lagið „Skyfall“ úr samnefndri James Bond mynd og er því engin furða að framleiðendur séu á eftir söngkonunni að skrifa undir nýjan samning.

Adele er einn vinsælasti tónlistarmaður veraldar um þessar mundir og segir hún á blogginu sínu að hún muni eftir því þegar hún var 15 ára og fór með föður sínum til New York, þar labbaði hún í Times Square og vonaðist til að hún myndi einn daginn eiga plötu í plötubúðum í New York. Henni fannst það þó mjög ólíklegt að það myndi gerast en skjátlaðist henni þó um það. Draumur hennar varð að veruleika og fást plötur hennar um allan heim og þar á meðal í New York.