Bond fyndnari en Craig

Heimurinn hefur flykkst í bíó að sjá Skyfall nú síðustu vikur, en myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum um helgina og sló þar aðsóknarmet fyrir Bond mynd. Hálfur milljarður Bandaríkjadala er kominn í kassann af sýningum myndarinnar nú þegar, samanlagt um allan heim.

CinemaBlend vefsíðan tók viðtalið hér að neðan við Daniel Craig sem leikur James Bond í myndinni með miklum glæsibrag.

Í viðtalinu segir hann meðal annars að það hafi verið í fyrsta skipti í þessari mynd sem hann hafi gert persónuna að sinni, eins og sagt er, þó hann viti að sjálfsögðu að aðrir muni koma síðar þegar hann hættir að leika njósnarann.  Hann segir einnig að Bond sé fyndnari en Craig sjálfur, enda með her handritshöfunda sem velur vandlega setningarnar sem hann segir í myndinni.