Godzilla, Star Wars og IT 2 í tökur á þessu ári

Tökur á skrímslakvikmyndinni Godzilla Vs. Kong, þar sem japanska kjarnorkuskrímslið Godzilla, sem við sáum síðast í Godzilla árið 2014, slæst við risaapann King Kong, sem við sáum síðast í Kong: Skull Island, hefjast í október nk. í Atlanta í Georgíu fylki í Bandaríkjunum. Unnendur skrímsla-trylla eiga því von á góðu, en talið er að tökurnar muni taka um fjóra mánuði, eða fram í febrúar 2019.

Leikstjóri er Blair Witch leikstjórinn Adam Wingard. Þó tökur taki einungis fjóra mánuði þá er annað eins eftir í eftirvinnslu og tæknibrellum, enda eru myndir eins og þessar ríkar af slíku. Frumsýningardagur hefur verið ákveðinn 22. maí 2020.

Star Wars Episode IX

Star Wars leikstjórinn J. J. Abrams segir að handrit næstu Stjörnstríðskvikmyndar sé tilbúið og tökur myndarinnar hefjist næsta sumar. Abrams leikstýrir og er einn handritshöfunda ásamt Chris Terrio (Argo, Batman v Superman).

Abrams ræddi handritið og tökurnar nú á dögunum í spjallþættinum The Late Show with Stephen Colbert:

Með því að hefja tökur nú í júlí fá aðstandendur nægan tíma til að gera mögulegar handritsbreytingar jafnóðum, og einnig að fá inn nýja leikara, en tímasetningin er dæmigerð fyrir tímalínu Star Wars kvikmynda. The Force Awakens var til dæmis tekin frá maí – nóvember 2014, og var svo frumsýnd í desember 2015.  The Last Jedi var tekin frá febrúar – júlí. Episode IX verður frumsýnd 20. desember árið 2019.

IT 2

Tökur á framhaldi hinnar velheppnuðu IT, sem gerð er eftir skáldsögu Stephen King, hefjast í sumar, en myndin var ein vinsælasta kvikmynd síðasta árs. Frumsýning hefur verið ákveðin árið 2019.

Vefsíðan Omega Underground  segir að tökur muni hefjast 18. júní nk. í Toronto í Kanada og standa yfir fram í október – nóvember á þessu ári.

Bill Skarsgård mun snúa aftur í hlutverki trúðsins Pennywise.