Hófst eftir þras á Facebook

Cult og klassík hópurinn Svartir sunnudagar mun hefja starfsemi sína í Bíó Paradís sunnudaginn 4. nóvember nk. kl. 20, en hópurinn mun standa að vikulegum kvikmyndasýningum í Bíó Paradís á sunnudagskvöldum í vetur.

Sigurjón Kjartansson, Hugleikur Dagsson og Sigurjón Sigurðsson ( Sjón )

Sigurjón Kjartansson segir í samtali við Kvikmyndir.is að hugmyndin hafi orðið til upp úr þrasi á Facebook.  „Þessi hópur  byrjaði upp úr þrasi. Við Hrönn [Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Bíó Paradís ] vorum eitthvað að þrasa á Facebook og ég hélt því fram að það væri ekki nógu mikið af skemmtilegum myndum í Bíó Paradís, og upp úr því settumst við niður og komumst að þeirri niðurstöðu að það væri gaman að gera svona lítinn klúbb sem kemur með hugmyndir að svona myndum. Úr varð að við þremenningarnir, ég, Hugleikur Dagsson og Sjón, myndum leiða þessa dagskrá í góðri samvinnu við þau Hrönn og Ásgrím Sverrisson dagskrárstjóra Bíó Paradísar.“

Myndir sem taka sig síður hátíðlega

Sigurjón segir að hugmyndin sé að sýna myndir sem taka sig síður hátíðlega, hvort sem er gamlar ítalskar hryllingsmyndir, eða myndir eins og Big Trouble in Little China. „Þetta er svona fínerís skemmtun,  og frábær fyrir sunnudagskvöld. Þarna rúmast inni allskonar klasssíkerar, eins og Hitchcock og Chaplin t.d. Við erum að velta fyrir okkur að Gold Rush eftir Chaplin verði jafnvel jólamynd Svartra sunnudaga.

Það að halda úti svona dagskrá með sýningar einu sinni í viku er tilraun sem er vel þess virði að gera. Það eru bjartir tímar framundan hjá Bíó Paradís.“

Fyrsta mynd Svartra sunnudaga er Zombie myndin Dawn of the Dead. „Þetta er Zombie myndIN. Hún var gerð 1978, og er fyrsta zombie myndin sem ávarpar samfélagsmál m.a. Þetta er eiginlega pólitísk mynd, og þarafleiðandi mikill áhrifavaldur. Hún hafði til dæmis mikil áhrif á Danny Boyle sem gerði 28 days later,“ segir Sigurjón.

Alltaf sérhönnuð plaköt

Sigurjón segir að allar myndir sem Svartir sunnudagar sýna fái sitt sérhannaða plakat. Um hönnun plakatsins fyrir Dawn of the Dead sá  Ómar Hauksson, grafískur hönnuður, en plakatið má sjá hér að neðan. „Svo eru menn eins og Bobby Breiðholt, Hugleikur Dagsson og fleiri sem fylgja í kjölfarið.“

Aðeins verður um eina sýningu á hverri mynd að ræða. „Við erum innblásnir af sambærilegum bíóum í útlöndum. Þetta er eins og sjónvarpsstöð og dálítil nostalgía. Þetta er eins og í gamla daga þegar RÚV sýndi eina bíómynd í viku, á laugardagskvöldum. Við hinsvegar veðjum á sunnudagskvöldin, það eru mikil bíókvöld.“

Fyrsta sýningin frá Svörtum sunnudögum verður haldin nú um Hrekkjavöku helgina, sunnudagskvöldið 4. nóvember kl. 20 eins og fyrr sagði. Fyrsta myndin sem sýnd verður er Dawn of the Dead, frá 1978 eftir George A. Romero.  Aðrar myndir sem áætlað er að sýna næstu vikurnar eru m.a. One Million Years B.C., Big Trouble in Little China, Black sunday ofl.
Svartir sunnudagar halda svo áfram í viku hverri fram á vor og jafnvel lengur.