Óskarshöfundur The Departed skrifar Sin City 2

Undirbúningur að Sin City 2 stendur nú sem hæst og leikstjórinn Robert Rodriguez og Frank Miller, sem teiknar myndasöguna sem Sin City er byggð á, hafa nú fengið í lið með sér engan annan en William Monahan til að vinna að handritinu, en Monahan vann Óskarsverðlaunin árið 2006 fyrir handritið að The Departed. Monahan á að koma með viðbætur við uppkast sem Miller kláraði nýlega.
Framhaldið af Sin City hefur lengi verið í umræðunni, en stemningin í kringum Sin City 2 hefur verið að aukast upp á síðkastið, en fyrsta myndin þénaði 100 milljónir Bandaríkjadala á alheimsvísu árið 2005.
Rodriguez, sem leikstýrði myndinni í félagi við Miller, sem eins og fyrr sagði skrifaði söguna sem myndin er byggð á, sagði á Comic-Con hátíðinni í júlí sl. að fjármögnun fyrir myndina væri tryggð, og tökur myndu hefjast um leið og handritið yrði klárað, hugsanlega í lok þessa árs.
Enn er óvíst með leikara, og hvort að einhverjir þeir sömu leikarar og komu við sögu í fyrri myndinni snúi aftur. Óstaðfestur orðrómur segir að persónur Mickey Rourke og Jessica Alba muni snúa aftur og þau þar með.
Rodriguez gaf í skyn í viðtali við The Hollywood Reporter á Comic-Con, að persónur sem voru á lífi í lok fyrstu myndarinnar, myndu líklega snúa aftur.
William Monahan hefur verið mjög eftirsóttur síðan hann vann Óskarinn. Meðal annars vinnur hann að vísindaskáldsögumynd Tom Cruise Oblivion, en verið er að ráða í hlutverk í þá mynd hjá Universal stúdíóinu. Nokkur önnur verkefni eru á skrifborði hans einnig, þar á meðal mun hann skrifa endurgerðina á The Gambler, sem Martin Scorsese mun að öllum líkindum leikstýra, og við sögðum frá hér á síðunni um helgina.