Sexið kemur á miðvikudag

Sambíóin um land allt taka til sýningar Sex and the City 2, miðvikudaginn 2 júní. Myndin fjallar um einn vinsælasta vinkvennahóp kvikmyndasögunnar, þær Carrie (Sarah Jessica Parker), Samantha (Kim Cattrall), Charlotte (Kristin Davis) og Miranda (Cynthia Nixon).

Sagan er eitthvað á þessa leið: „Lífið leikur við Carrie og vinkonur hennar, hún á í hamingjusömu sambandi við Mr. Big sem virðist loks hafa komist á stöðugan kjöl og vinkonurnar virðast allar vera að fá það sem þær vilja í lífinu. Hins vegar er aldrei langt í uppreisnina hjá þeim, þar sem þær draga stöðugt í efa þær hefðbundnu væntingar sem eru gerðar til þeirra á öllum sviðum, sem eiginkonur, mæður og fleira.
Því ákveða þær að skella sér í risastóra ævintýrareisu. Þær yfirgefa öryggi umhverfis síns í New York og fara til sólríkrar paradísar þar sem partýið lifir góðu lífi allan sólarhringinn og eitthvað framandi og heillandi leynist við hvert götuhorn. En kannski hefur þessi ferð önnur og alvarlegri áhrif á líf þeirra en þær ætluðu sér…“

Í fréttatilkynningu frá SAM bíóunum birtast nokkrir skemmtilegir molar um myndina. Til dæmis að margar af þekktustu kvenstjörnum heims hafi sóst eftir hlutverki í myndinni, það á meðal fína kryddið hún Victoria Beckham, en henni varð ekki kápan úr því klæðinu.

Til greina fyrir hlutverk í myndinni komu ýmsar leikkonur, svo sem Katie Holmes og Eva Green, þó þær hafi að lokum ekki komið við sögu.

Stórstjörnurnar birtast þó í röðum í ýmsum smáhlutverkum, og til að mynda má koma auga á bombuna Mariuh Carey, Kabarett drottninguna Lizu Minnelli, smástirnið Miley Cyrus, spænsku ofurskutluna Penélope Cruz og fyrirsætuna Heidi Klum.

Myndin var tekin upp í Marokkó og New York að sjálfsögðu.

Þess má að lokum geta að Sex and The City 2 náði aðeins öðru sæti aðsóknarlistans í Bandaríkjunum núna þegar hún var frumsýnd, en græna tröllið Shrek hafði þar betur og tyllti sér í toppsætið.

Shrek og Mike Myers sem talar fyrir hann í teiknimyndinni vinsælu, toppuðu sexið.