Toy Story 3 slær í gegn


Það eru greinilega ekki bara gagnrýnendur sem heillast af nýjustu snilld Pixar, Toy Story 3, því myndin sló algerlega í gegn í Bandaríkjunum núna um helgina. Hún varð langefst með áætlaðar 109 milljónir dollara í aðsókn. Ef talan stenst er hér um að ræða 10. stærstu opnunarhelgi nokkurrar myndar í Bandaríkjunum, þriðju stærstu opnun ársins, stærstu opnunarhelgi nokkurrar Pixar-myndar frá upphafi, auk þess sem hún átti stærsta frumsýningardag nokkurrar teiknimyndar frá upphafi á föstudaginn, með 41 milljón dollara.
Verður að teljast líklegt að hún verði tekjuhæsta Pixarmynd allra tíma, og slái þar með út 339 milljónirnar sem Finding Nemo tók inn.

Í öðru og þriðja sætinu voru toppmyndir síðustu helgar, The Karate Kid og The A-Team. Sú fyrrnefnda bætti 29 milljónum í kassann, og komst í leiðinni yfir 100 milljónirnar, á meðan The A-Team tók inn tæpar 14 millur og er nú við 50 milljóna markið. Shrek Forever After skaðaðist mest á komu Toy Story í bíóin, þar sem aðsókn á hana féll um 65% milli helga.

Sci-fi/hasar/teiknimyndasöguvestrinn Jonah Hex olli miklum vonbrigðum og náði aðeins áttunda sætinu með um 5 milljónir dollara. Fékk hún slæma dóma auk þess sem sögur af vandræðum við framleiðsluna sköðuðu orðspor hennar síðustu mánuði.

Um næstu helgi verða hasargrínið Knight & Day með Tom Cruise og Cameron Diaz og gamanmyndin Grown Ups frumsýndar.

Hvor haldið þið að endi ofan á? Eða verður Toy Story 3 enn efst þann 27. júní?

Erlingur Grétar Einarsson