Paramount staðfestir Transformers 4

Það sem virðist vera dómsdagur fyrir mörgum hefur runnið upp; Paramount Pictures staðfesti í gær að fjórða Transformers kvikmyndin færi í vinnslu á árinu. Þetta kemur þó algjörlega engum á óvart þar sem serían er einn stærsti gullkálfur kvikmyndaiðnaðarins og þriðja myndin situr í fjórða sæti yfir tekjuhæstu kvikmyndir allra tíma.
Í október síðastliðnum kom í ljós að Hasbro var í viðræðum við Paramount um að halda seríunni áfram og á sama tíma spruttu upp orðrómar um þátttöku Jasons Statham í bæði fjórðu og fimmtu myndinni (sem er ekki enn staðfest). Í ljósi nýrra upplýsinga dagsins virðist þó sem að Statham í Transformers sé ekki svo ólíklegt.

Samkvæmt einum framleiðanda myndarinnar, Lorenzo Di Bonaventura, verður fjórða myndin í svipuðum stíl og framhald G.I. Joe og ekki algjört „reboot“; að því leiti að þetta verður áframhald smærri söguþráðar frá fyrri myndum og aðeins nokkrir karakterana snúa aftur. Þar á meðal mun stjarna seríunnar, Shia LaBeouf, líklegast ekki vera og því eru Statham orðrómarnir farnir að hljóma mun trúverðugri. Meðal þeirra sem munu snúa aftur hins vegar er leikstjórinn Michael Bay, en ekki fyrr en hann klárar núverandi verkefni sitt Pain & Gain. Eftir það fara tölvugerðu róbottarnir aftur að brýna hnúana, en Bay vildi taka það fram að hann er ekki með tvær Transformers-myndir í bígerð; allavega ekki að svo stöddu.

Þar höfum við það, þrátt fyrir lækkandi einkunnir og fjölmarga rottna tómata lifir Transformers-serían áfram. Þú mátt búast við Transformers 4 þann 29. júní 2014.