Quaid í nýju Scream

Bandaríski leikarinn Jack Quaid hefur verið ráðinn í hlutverk í hinni væntanlegu Scream 5, en það eru framleiðslufyrirtækin Paramount Pictures og Spyglass Media sem standa að myndinni.

Quaid í kröppum dansi.

Upprunalegu leikararnir Courntney Cox og David Arquette, mæta til leiks á ný í sömu hlutverkum og áður, sem fréttakonan Gale Weathers og lögreglustjórinn Dewey Riley.  Samkvæmt frétt Variety þá er ekki ljóst sem stendur hvaða hlutverk Quaid muni leika.

Ready or Not leikstjórarnir Matthew Bettinelli-Olpin og Tyler Gillet leikstýra eftir handriti James Vanderbilt og Guy Busick. Með önnur hlutverk í kvikmyndinni fara Melissa Barrera og Jenna Ortega.

Búist er við að tökur hefjist síðar á þessu ári í Wilmington. Samkvæmt Variety hefur Paramount tilkynnt að Scream verði frumsýnd 14. janúar 2022.

Upprunalega myndin var frumsýnd árið 1996 og var með Neve Campbell í hlutverki Sidney Prescott, menntaskólanema sem varð skotmark dularfulls morðingja sem klæðir sig upp á Hrekkjavökunni eins og draugur.  Tekjur myndarinnar námu samtals 173 milljónum Bandaríkjadala um allan heim, og er Scream ein vinsælasta slægja ( e. slasher film ) allra tíma, eða þar til Halloween var frumsýnd árið 2018 með Jamie Lee Curtis í aðalhlutverkinu.

Vinsældir Scream urðu til þess að þrjár framhaldsmyndir voru gerðar, við mismiklar vinsældir. Serían í heild sinni náði að hala inn tekjur upp á 600 milljónir dala áður en yfir lauk, á heimsvísu.

Quaid leikur nú í ofurhetjuseríunni The Boys á Amazon streymisveitunni. Þá hefur hann leikið í gamanmyndinni Plus, og fyrstu tveimur Hunger Game myndunum.