Scarlett orðuð við Gamergate-mynd

Scarlett Johansson hefur verið orðuð við aðalhlutverkið í Hollywood-mynd sem verður byggð á óútkominni bók Zoë Quinn, Crash Override: How To Save The Internet From Itself. scarlett

Bókin er byggð á sönnum atburðum og segir frá því þegar hin 28 ára Quinn, sem bjó til tölvuleikinn Depression Quest, varð óumbeðin hluti af Gamergate-hreyfingunni á netinu eftir að fyrrverandi kærasti hennar setti skilaboð á bloggsíðuna sína sem fóru eins og eldur í sinu um netheimana.

Gamergate-hreyfingin gaf sig út fyrir að berjast fyrir bættu siðferði hjá blaðamönnum sem fjalla um tölvuleiki en á endanum varð hreyfingin til þess að konur í tölvuleikjaiðnaðinum voru áreittar á netinu og lagðar í einelti.

Quinn fékk einna verstu útreiðina hjá þessari hreyfingu og núna verður saga hennar sögð á hvíta tjaldinu.

Scarlett Johansson lenti sjálf illa í því í netheimum árið 2012 þegar tölvuþrjótur braust inn í tölvupósthólf  hennar og birti nektarmyndir af henni .

Johansson lék síðast í Avengers: Age of Ultron þar sem hún lék Svörtu ekkjuna. Hún leikur sömu persónu í Captain America: Civil War sem er væntanleg í bíó á næsta ári.