Ný Scarface mynd í bígerð

Universal Pictures stendur nú í því ferli að finna handritshöfunda til að skrifa þriðju útfærsluna á Scarface myndunum frægu. Sú fyrsta var gefin út árið 1932 og fylgdi Ítalanum Antonio ‘Tony’ Camonte á meðan hann reis upp valdastigann í glæpasamtökum Chicago borgar. Endurgerðin, sem flestir ættu að þekkja, kom út árið 1983 en fylgdi nú hinum Kúbanska Tony Montana sem fylgdi í fótspor Antonio Camonte nema nú í sjóðheitu borginni Miami.

Nýja myndin á hins vegar ekki að vera endurgerð, heldur fær hún nokkra liði úr báðum myndunum að láni og heldur áfram þaðan. Hvert þjóðerni aðalkaraktersins verður vill stúdíóið halda fyrir sig í augnablikinu en 1983 myndin fékk á sig ágætlega mikla gagnrýni frá Kúbanska samfélaginu á sínum tíma.

Það væri kannski ekki svo amalegt að fá Scarface mynd fyrir núverandi kynslóð, maður vonar bara að nýja myndin traðki ekki á forverum sínum.