Rock endurgerir Saw hrollvekjuna

Chris Rock er svo rosalega hrifinn af Saw hrollvekjunum að hann hefur ákveðið að búa sér til eina slíka sjálfur. Samkvæmt kvikmyndaritinu Variety þá hafa hann og Lionsgate framleiðslufyrirtækið nú leitt saman hesta sína til að endurskapa Saw seríuna, og frumsýningardagur er meira að segja ákveðinn; 23. október 2020.

„Ég hef verið aðdáandi Saw síðan fyrsta myndin kom í bíó árið 2004,“ segir Rock. „Ég er spenntur að fá tækifæri til að fara með þetta í mjög tryllta og klikkaða átt.“

Leikstjóri nýju myndarinnar verður Darren Lynn Bousman, sem leikstýrði Saw 2, 3 og 4, og handritið skrifa Pete Goldfinger og Josh Stolberg, byggt á hugmynd Rock.

„Þegar Chris Rock kom til okkar og lýsti í ísköldum smáatriðum hvernig hann sá þetta fyrir sér, þá voru við umsvifalaust spenntir. Saw er ein tekjuhæsta hrollvekjusería allra tíma, og ein vinsælasta kvikmyndasería í sögu Lionsgate,“ sagði stjórnarformaður fyrirtækisins, Joe Drake. „Þessi nýja mynd verður átakamikil og hugarvíkkandi á alla mælikvarða, rétt eins og upprunalegu myndirnar.“

Auk Saw þá er Rock nú að leikstýra nýrri fjölskyldu-gamanseríu fyrir sjónvarp, The Kenan Show, með Saturday Night Live leikaranum Kenan Thompson í aðalhlutverki.

Upprunalega Saw myndin kostaði 1,2 milljónir bandaríkjadala, og var fyrsta mynd James Wan sem leikstjóra. Síðasta mynd hét Jigsaw og var frumsýnd árið 2017. Tekjur hennar um allan heim námu 100 milljónum dala.