Leikstjóri 'Saw' með nýja hryllingsmynd – STIKLA

James Wan er talinn vera einn af meisturum hrollvekjunnar í nútímaformi og síðasta mynd hans Insidious hræddi líftóruna úr fólki um allan heim. Wan er hvað þekktastur fyrir hroll- og spennumyndina Saw sem varð gríðarlega vinsæl og hafa verið gerðar nokkrar myndir um Jigsaw og pyntingaraðferðir hans.

Nú hefur verið sýnd ný stikla úr nýjustu mynd hans The Conjuring sem fjallar um fjölskyldu sem verður vör við yfirnáttúrulegar verur á heimili sínu. Þar af leiðandi leitar fjölskyldan til fagfólks sem sérhæfir sig í yfirnáttúrulegum öflum. Fagfólkið sér þó snemma að það hefur engin úrræði gegn þessum öflum og verður þá fjölskyldan að berjast saman.

 

The Conjuring verður frumsýnd vestanhafs 19. júlí næstkomandi og framleiðir New Line Cinema myndina. Með aðalhlutverk fara Vera Farmiga, Patrick Wilson, Ron Livingston og Lili Taylor.