Þrestir valin besta myndin á San Sebastián

plakatÞrestir, nýjasta kvikmynd leikstjórans, handritshöfundarins og framleiðandans Rúnars Rúnarssonar, var valin besta myndin á San Sebastián kvikmyndahátíðinni, sem fram fór í borginni Donostia-San Sebastián á Spáni. Rúnar veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn í kvöld.

Í tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands segir að um gífurlegan heiður sé að ræða, enda sé San Sebastián ein af fáum svokölluðum „A“ kvikmyndahátíðum og hafa aðeins örfáar íslenskar kvikmyndir í fullri lengd unnið til aðalverðlauna á slíkum hátíðum. Þrestir var nýverið heimsfrumsýnd á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Toronto og verður frumsýnd hérlendis á RIFF 2. október næstkomandi.

Þrestir er ljóðrænt drama sem fjallar um Ara, 16 ára pilt, sem sendur er á æskustöðvarnar vestur á firði til að dvelja hjá föður sínum um tíma. Samband hans við föður sinn er erfitt og margt hefur breyst í plássinu þar sem hann ólst upp. Ari endurnýjar kynnin við Láru, æskuvinkonu sína og þau laðast að hvort öðru.

Rúnar Rúnarsson leikstýrir og skrifar handritið að Þröstum. Mikkel Jersin og Rúnar Rúnarsson eru aðalframleiðendur myndarinnar fyrir Nimbus Film. Framleiðandi er Birgitte Hald og meðframleiðendur eru Lilja Ósk Snorradóttir og Igor Nola. Í aðalhlutverkum eru Atli Óskar Fjalarsson, Ingvar E. Sigurdsson, Rakel Björk Björnsdóttir og Rade Serbedzija. Tónlist myndarinnar er samin af Kjartani Sveinssyni.

Þrestir er önnur kvikmynd Rúnars í fullri lengd, sú fyrsta var Eldfjall sem var heimsfrumsýnd á Director‘s Fortnight hluta Cannes kvikmyndahátíðarinnar árið 2011. Eldfjall ferðaðist víða um kvikmyndahátíðir heimsins og það sama má segja um tvær stuttmynda Rúnars, Smáfugla og Síðasta bæinn. Síðasti bærinn hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir bestu leiknu stuttmynd árið 2006.

Þess má geta að árið 2013 hlaut Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson Kutxa-New Directors verðlaunin á San Sebastián hátíðinni, sem reyndist marka upphafið að mikilli sigurför myndarinnar um hátíðir heimsins.