Óuppgerð mál feðga

The_Judge_2014_film_posterKvikmyndin The Judge verður frumsýnd hér á landi föstudaginn 17. október. Leikararnir Robert Downey Jr. og Robert Duvall fara á kostum í hlutverki feðga sem hafa ekki hist í mörg ár og eiga sín á milli óuppgerð mál úr fortíðinni, en segja má að þau hafi nagað þá báða um árabil.

Downey Jr. fer með hlutverk Hank Palmer sem er eftirsóttur lögfræðingur og er þekktur fyrir að taka að sér mál hvítflibbaglæpamanna og vinna þau fyrir dómi. Hann er frá litlum bæ í Indiana þar sem faðir hans er dómari en hefur hvorki komið þangað í fjölda ára né haft mikil samskipti við fjölskyldu sína og æskuvini síðan hann yfirgaf svæðið.

Þegar móðir Hanks deyr heldur hann til heimabæjar síns til að vera viðstaddur útförina og ætlar sér í fyrstu ekki að stoppa miklu lengur en nauðsyn krefur. Í ljós kemur að það er ekki bara stirt á milli hans og föður hans, hins aldna dómara Josephs Palmer, heldur á Hank einnig óuppgerð mál við bræður sína tvo og fyrrverandi unnustu, Samönthu.

En dvöl Hanks í bænum eftir útförina á eftir að verða lengri og viðburðaríkari en hann gerði ráð fyrir þegar faðir hans er ákærður fyrir að hafa ekið á mann og banað honum, og síðan stungið af frá vettvangi.

Í aukahlutverkum er frábær leikhópur og fara þar fremst í flokki þau Vera Farmiga, Billy Bob Thornton, Vincent D’Onofrio, Leighton Meester, Sarah Lancaster og Jeremy Strong.

The Judge verður sýnd í Sambíóunum Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri.