Lizzie Borden og axarmorðin fá stiklu og plakat

Nýtt plakat og stikla er komin út fyrir axarmorðingjamyndina sannsögulegu Lizzie, en kvikmyndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum í næsta mánuði. Myndin fjallar um hina alræmdu Lizzie Borden, sem hin Óskarstilnefnda Chloe Sevigny (Boys Don’t Cry, Big Love) leikur, sem réttað var yfir í dómssal árið 1892, og var að lokum sýknuð af ásökunum um að drepa föður sinn og stjúpmóður með exi.

Í myndinni leikur Kristen Stewart ráðskonu Lizzie og ástkonu, Bridget Sullivan.

Sagan af Lizzie er enn í dag ein lífsseigasta ráðgátan í bandarískri sögu. Eftir að Lizzie var sleppt úr gæsluvarðhaldi sem hún var í á meðan á réttarhöldunum stóð, þá ákvað hún að búa áfram í Fall River, þrátt fyrir að þurfa að þola útskúfun bæjarbúa. Massachusetts ríki ákvað að kæra engan annan fyrir morðin á Andrew og Abby Borden, og því hafa vangaveltur um glæpinn haldið áfram allt fram á þennan dag.

Borden dó úr lungnabólgu 66 ára gömul.

Söguþráður myndarinnar er í stuttu máli þessi: Eftir einmanaleika allt sitt líf, þá hittir Lizzie loks þá einu réttu í Bridget Sullivan, og leynifundir þeirra verða kveikjan að hroðalegum atburðum.

Leikstjórinn Craig William skoðar í myndinni dagana á undan glæpnum hroðalega.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og glænýtt plakatið hér fyrir neðan: