Child vill hávaxinn leikara sem Jack Reacher

Einn vinsælasti spennusagnahöfundur samtímans, Lee Child, sem hefur selt meira en hundrað milljón eintök af bókum um Jack Reacher, hefur nú ákveðið að skrifa Jack Reacher handrit fyrir sjónvarpsþætti, eftir að aðdáendur hans kvörtuðu við hann um túlkun Tom Cruise á sögupersónunni.

Reacher, sem er einkaspæjari og flækingur, er lýst í bókum Child sem hávöxnum manni, 196 sm á hæð. Tom Cruise er hinsvegar sagður vera aðeins 170 sm á hæð.

„Ég hef fengið tugþúsundir bréfa frá fólki sem segir að þeim líki ekki Cruise af því að hann sé of lítill,“ segir Child. „Eitt af því sem er einkennandi fyrir Reacher er að hann er mjög ógnvekjandi í viðkynningu. Jafnvel án þess að gera nokkurn hlut, þá verður fólk dálítið órólegt um leið og hann gengur inn í herbergi. Fólki fannst Cruise ekki ná að skila þeim persónueinkennum í myndunum tveimur. Lesendur bókanna hafa því ekki alveg verið með frá byrjun.“

Tom Cruise hefur leikið Jack Reacher í myndunum Jack Reacher og Jack Reacher: Never Go Back.

Child vonar að skrifað verði undir samning í nóvember um vinnu við þættina. Spurður um leikaraval í þættina, segir hann í samtali við The Guardian: „Það er það frábæra við sjónvarp. Þú þarft ekki jafn mikið á stórstjörnum að halda. Þannig að þetta þarf ekki að vera einhver heimsfrægur.“

Í The Guardian segir Child að hann ætli að afhenda handritasafni Háskólans í East Anglina ( UEA ) safn af aðdáendabréfum, skissum og handritum til varðveislu, og þar með verður það algengilget almenningi.

Child hefur safnað saman um 40 risastórum kössum af pappír á ferli sínum, sem allir fara í safnið.

Child, sem er fæddur í Coventry á Englandi fyrir 63 árum síðan, sló í gegn eftir að hann gaf fyrstu Reacher bók sína út árið 1997.  23. bókin í seríunni, Past Tense, kemur út í nóvember.

Bækurnar hafa verið þýddar á 49 tungumál. Child byrjaði ekki að skrifa bækur fyrr en hann var orðinn 40 ára gamall, en þá átti hann að baki 18 ára feril í sjónvarpi, hjá Granada sjónvarpsstöðinni bresku.