Deadpool 2 frumsýnd fyrr en áætlað var

Aðdáendur Ryan Reynolds og Deadpool-kvikmyndarinnar þurfa ekki að bíða eins lengi og þeir héldu því framhaldsmyndin verður frumsýnd tveim vikum fyrr en áætlað var. Frumsýningin verður því þann 18. maí næstkomandi í stað fyrir 1. júní.

Deadpool var óvæntasti bíósmellur þarsíðasta árs um heim allan, en myndin varð t.d. fjórða vinsælasta mynd ársins á Íslandi árið 2016 með rúmar 52 milljónir íslenkra króna í tekjur. Myndin þénaði meira en 780 milljónir Bandaríkjadala um heim allan, en kostaði einungis 58 milljónir dala.

Aðrir helstu leikarar í Deadpool 2 eru Zazie Beetz sem Domino, Josh Brolin sem Cable og Jack Kesy sem leikur illmennið Black Tom. Leikarar sem snúa aftur úr fyrstu myndinni eru T.J. Miller (Weasel), Morena Baccarin (Vanessa), Brianna Hildebrand (Negasonic Teenage Warhead), Leslie Uggams (Blind Al) og Karan Soni (Dopinder).

Leikstjóri er David Leitch (John Wick, Atomic Blonde) sem tekur við af Tim Miller, sem hætti við verkefnið vegna listræns ágreinings við Reynolds. Sagt er að ágreiningurinn hafi meðal annars snúist um ráðningu í hlutverk Cable, en Reynolds vildi ráða hinn 51 árs gamla Kyle Chandler, en Miller hafnaði því.