Sáu Deadpool ókláraða

Nú fer að líða að því að kvikmyndin um andhetjuna Deadpool (Ryan Reynolds) komi bíó. Því var aðdáendum í New York-borg og Los Angeles boðið að næla sér í miða á sýningu, þar sem þau áttu að fá að sjá atriði sem ekki höfðu áður verið sýnd.

deadpool

Annað kom svo á daginn, þar sem í ljós kom að gestir fengu að sjá ókláraða útgáfu af myndinni í fullri lengd. Svo kom reyndar líka í ljós að það er eitt atriði skilið eftir, alveg í lokin, á eftir kredit-listanum. Ef fólk þarf ekki að drífa sig heim strax eftir að myndin klárast, gæti verið gaman að bíða eftir því.

Eftir að myndin hafði klárast fóru margir á Twitter til að lýsa ánægju sinni með myndina.

Ryan Reynolds (Deadpool) var á staðnum, í New York-borg, til að kynna myndina. Í Los Angeles voru það leikstjórinn Tim Miller, handritshöfundar myndarinnar (Rhett Reese og Paul Wernick), Brianna Hildebrand (Negasonic Teenage Warhead), einn þeirra sem skapaði Deadpool (Rob Liefeld) og Stan Lee.

Í Kína verður myndin ekki sýnd yfir höfuð, þar sem hún inniheldur víst of mikið ofbeldi, nekt og dónalegt orðbragð. Það virðist vera svo mikið um allt þrennt að ekki væri hægt að gera endurklippta útgáfu af henni, án þess að það bitni á söguþræði myndarinnar.

Þetta mun líklega hafa áhrif á hve mikinn pening myndin mun hala inn, þar sem Kína er næst-stærsti markaðurinn fyrir kvikmyndir í heiminum um þessar mundir.

Deadpool kemur í bíó hér á landi nokkrum dögum fyrir Valentínusardaginn, þann 12. febrúar, eins og reyndar í Bandaríkjunum einnig.