Reynolds verður nýr líkami krabbameinssjúklings

Leikstjórinn Tarsem Singh, sem gerði Mirror Mirror og Immortals, og Ryan Reynolds hyggjast leiða saman hesta sína í vísindatryllinum Selfless, sem skrifaður er af bræðrunum Alex og David Pastor. 

Handritið að þessari mynd komst á lista yfir bestu ókvikmynduðu kvikmyndahandritin í Hollywood árið 2011, en nú á að ganga alla leið og koma handritinu yfir á hvíta tjaldið.

Upphaflega ætluðu þeir Pastor bræður að leikstýra myndinni sjálfir, en þeir eru best þekktir fyrir að skrifa og leikstýra myndinni Carriers frá árinu 2009, með þeim Chris Pine og Emily VanCamp í aðalhlutverkum.

Myndin mun fjalla um ákaflega efnaðan eldri mann sem er að deyja úr krabbameini. Hann fer í mikla læknisaðgerð sem flytur meðvitund hans yfir í líkama heilbrigðs ungs manns, en ekki fer allt samkvæmt áætlun, og hann fer að komast að leyndarmálum sem snúa að uppruna nýja líkamans og leynifélögunum sem hika ekki við að myrða til að leyndarmál verði ekki afhjúpuð.

Ryan Reynolds sést næst í spennu-gamanmyndinni R.I.P.D. en einnig er að hann að vinna að spennutryllinum Queen of the Night eftir Atom Egoyan og The Voices eftir Marjane Satrapi.