Gosling og Evans í dýrustu Netflix-mynd allra tíma

Ryan Gosling og Chris Evans hafa verið ráðnir í aðalhlutverk kvikmyndarinnar The Gray Man, eða Grái maðurinn í lauslegri íslenskri snörun. Um er að ræða dýrustu kvikmynd Netflix til þessa, eins og segir á film-news.co.uk.

Ryan Gosling steytir hnefana.

Kostnaðaráætlun vegna myndarinnar er rétt um 200 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar ríflega 28 milljörðum íslenskra króna. Leikstjórar verða AGBO bræður, þeir Joe og Anthony Russo, sem leikstýrðu Marvel ofurhetjumyndinni Avengers: Endgame eins og frægt er orðið.

Chris Evans í gervi Captain America.

Í samtali við kvikmyndavefinn Deadline segir Anthony Russo að kvikmyndin væri um átök tveggja manna, sem leiknir verða af þeim Gosling og Evans, en þeir eru á öndverðum meiði innan leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, um það hvað má og hvað má ekki gera.

Grái maðurinn er byggð á röð skáldsagna eftir Mark Greaney, sem gæti þýtt að Netflix ætli sér að búa til einhversskonar seríu af kvikmyndum í stíl við James Bond.

Joe Russo segir um kostnaðaráætlun kvikmyndarinnar að kvikmyndin eigi að geta staðist stórum Hollywood myndum snúning, og það sé algjör draumur að fá þá Gosling og Evans í hlutverkin. „Hugmyndin er að skapa seríu og heilan sagnaheim, með Ryan ( Gosling ) þar í forgrunni.“

Joe segir að það sé óneitanlega ákveðin pressa á þeim bræðrum að fyrsta myndin verði góð. „Þarna verða meistara leigumorðingjar á ferð. Persóna Gosling er svikin af CIA, og persóna Evans eltir hann.“

Stefnt er að því að hefja tökur á kvikmyndinni í janúar.