Var tíma að núllstilla sig eftir drullusokkinn

Ólafur Darri Ólafsson, sem leikur aðalhlutverkið í mynd Marteins Þórssonar XL, alþingismanninn Leif, segir að það taki sig yfirleitt dálítinn tíma að núllstilla sig eftir að hafa leikið svona vonda karaktera, eins og hann orðar það í viðtali við Kastljós á RÚV.

Partýið að byrja  – Helgi Björnsson og Ólafur Darri í hlutverkum sínum í XL.

„Hann er skemmtilegur drullusokkur, alkóhólisti og er duglegur að koma sér í vandræði,“ segir Ólafur í viðtalinu. „[Það er] erfitt að koma sér út úr stundum þegar maður leikur svona vonda karaktera, svona mikla asna, þá er maður dálítinn tíma að núllstilla sig eftir það,“ bætir Ólafur við, en segir einnig að það hafi þó gengið nokkuð vel í þetta sinn.

María Birta Bjarnadóttir leikur ástkonu Leifs, sem er 20 árum yngri en hann. Hún segir í Kastljósinu að hún sé fórnarlamb hans og leiti í öryggi hjá honum. „Hann á flotta íbúð, hún kemur úr mjög brotinni fjölskyldu og er mjög meðvirk fyrir, [….] og á bara mjög sjúklegt meðvirkt samband við hann Leif.“

Byggir á eigin reynslu sem helsjúkur alkóhólisti

Marteinn Þórsson leikstjóri segir í þættinum að Leifur sé sóttur í nokkrar þekktar týpur sem við þekkjum öll, eins og hann orðar það. „Reynslan hans, partýin og allt það sem hann fer í gegnum er byggt mikið til á minni reynslu sem helsjúks alkóhólista, og svo á sögum sem maður hefur heyrt, og er ekki eitthvað slúður, heldur veit maður að þetta er í gangi.

Maður hefur heyrt svo margar krassandi sögur um menn í valdastöðum sem hafa gert nánast alla þessa hluti sem maður sér í myndinni,“ segir Marteinn í samtali við Kastljósið.

XL verður frumsýnd á morgun, föstudaginn 18. janúar í Sambíóunum.