Tvífari DiCaprio á heima í Rússlandi

Það er hægt að gera það gott ef maður er tvífari frægrar kvikmyndastjörnu. Það er einmitt það sem rússneski tölvuþjónustumaðurinn Roman Burtsev hefur uppgötvað, en hann þykir sláandi líkur stjörnunni, og er af mörgum kallaður „feiti DiCaprio“, þó hann vinni nú í því að missa aukakílóin hratt til að líkjast fyrirmyndinni meira.

tvífari 2

Wall Street Journal fjallar um Burtsev á vef sínum, en ekki er langt síðan Burtsev, sem er 33 ára gamall, vann sína vinnu samkvæmt venju í rússnesku iðnaðarborginni Podolsk.

Í dag er hann hinsvegar skyndilega farinn að taka upp grínmyndbönd í líki DiCaprio, er orðinn stjarna á netinu, og raunveruleikastjarna í rússnesku sjónvarpi.

En hvernig gerðist þetta? Staðreyndin er sú að Burtsev er, fyrir utan u.þ.b. 50 aukakíló, nánast eftirmynd DiCaprio – en DiCaprio er einmitt í sviðsljósinu á morgun á Óskarsverðlaunahátíðinni þar sem hann vonast til að vinna sín fyrstu Óskarsverðlaun á ferlinum, eftir að hafa verið tilnefndur til verðlaunanna fjórum sinnum en ekki fengið.

DiCaprio, sem er 41 árs gamall, er nú tilnefndur fyrir hlutverk sitt í The Revenant, þar sem hann leikur skinnasölumann á 19. öldinni, sem þarf að lifa af við erfiðar aðstæður úti í villtri náttúru, eftir að hafa lent í bjarndýraárás og skilinn eftir til að deyja.

Raunveruleikaþátturinn sem Burtsev leikur í þessa dagana, og er sýndur á Moskva 24 stöðinni, gengur út á að hann finni hina einu sönnu ást.

tvífari

Burtsev er nú á stífum megrunarkúr sem á að hjálpa honum að verða enn líkari DiCaprio, og hefur hann nú þegar misst um 12 kíló.

Fyrir viku síðan var Burtsev að skríða í snjó allan daginn í almenningsgarði í Moskvu, og fyrr í mánuðinum stillti hann sér upp með öllum konum sem vildu, í Titanic atriðinu fræga, með DiCaprio og Kate Winslet

Burtsev er þó ekkert líkur þeim persónum sem DiCaprio hefur leikið í myndum sínum. Hann er bæði fámáll og einrænn, og talar lágum rómi. Hann leikur skák. Horfir á Indiana Jones og Jackie Chan og þráir það eitt að eignast konu og börn.

„Allir þurfa að finna einhvern tilgang í lífinu,“ segir hann við WSJ.

Ævintýri Burtsev hófst þegar hann birti mynd af sér í vinnugallanum á rússneskri stefnumótasíðu, þar sem hann vonaði að einkennisbúningurinn myndi heilla einhverja konuna. Hann segist ekki hafa fengið nein alvöru viðbrögð, og tók myndina því niður tveimur vikum síðar.

leo

Í millitíðinni sá einhver myndina og tók eftir líkindunum við DiCaprio og endurbirti myndina á samfélagsmiðlum. Í janúar sögðu vinir hans honum að myndin væri komin út um allt internetið, og hann hélt að þessu myndi linna fljótt. En það var öðru nær.

Framleiðendur frá Moskva 24 fundu hann og buðu honum meira en tvöföld mánaðarlaun til að leika aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttum sem áttu að renna sitt skeið stuttu eftir að Óskarsverðlaunin yrðu afhent. Hann ákvað því að taka sér frí í vinnunni.

„Ég hugsaði, afhverju ekki að reyna“ sagði Burtsev.

DiCaprio er vinsæll í Rússlandi, enda hefur hann talað opinskátt um rússneskan bakgrunn sinn ( amma hans var rússnesk ) og látið í ljós áhuga á að leika Vladimir Putin Rússlandsforseta.

Uppáhalds DiCaprio-mynd Burtsev er Inception.

Hann segist vilja hitta leikarann einn daginn, til að sjá hvort þeir séu jafn líkir persónuleikar og þeir eru líkir á ytra byrði.

Tilraunir til að koma á fundi þeirra „tvíburabræðra“ hafa hingað til mistekist.