Perlman byrjaður á Hellboy 3

Enn er líf í Hellboy ofurhetjuseríunni. Nokkur ár eru nú síðan mynd númer tvö, Hellboy II: The Golden Army, var frumsýnd en þriðja myndin hefur látið bíða eftir sér, eða öllu heldur er lítil sem enginn vinna búin að eiga sér stað.

hellboy-5

Nú berast hinsvegar þær fréttir frá Ron Perlman, aðalleikara Hellboy, að hann sé að vinna að þriðju myndinni.

Perlman lýsti þessu yfir á Twitter reikningi sínum, en allir aðrir aðilar tengdir Hellboy eru önnum kafnir í öðrum verkefnum, þar á meðal leikstjórinn Guillermo Del Toro.

„Ég er að vinna að nýrri Hellboy kvikmynd. Enginn annar er að gera það. En það er alveg klárt mál að ég er að því!“ sagði Perlman á Twitter.

Eins og Mowieweb bendir á þá er þetta langt í frá í fyrsta sinn sem Perlman gefur til kynna að Hellboy 3 sé mögulega á leiðinni, en síðustu tvö ár hefur hann ítrekað reynt að koma myndinni á skrið.

Fyrsta Hellboy myndin féll í frjóan jarðveg hjá gagnrýnendum árið 2004, og gekk sæmilega í miðasölunni, með tekjur upp á 100 milljónir Bandaríkjadala og kostnað upp á 66 milljónir dala.

Hellboy II: The Golden Army gekk betur. Hún er með 85% á Rotten Tomatoes og þénaði 160 milljónir dala, en kostaði 85 milljónir.

Nú er að sjá hvort að Perlman verði eitthvað ágengt í þetta sinn og fái sitt fólk að borðinu.