Rogue One spáð feiknagóðri frumsýningarhelgi

Mátturinn heldur áfram að vera sterkur með Lucasfilm og Disney, skapara Star Wars myndanna, en sérhæfðir spámiðlar í Hollywood spá því að Rogue One: A Star Wars Story, sem frumsýnd verður rétt fyrir jól, muni raka saman hátt í 150 milljónum Bandaríkjadala á frumsýningarhelgi sinni, þann 16. -18. desember nk.

rogue

Almennt er talið að tekjur myndarinnar muni nema rúmum 130 milljónum dala þessa helgi, sem myndi þýða að um væri að ræða næst-tekjuhæstu kvikmynd á frumsýningarhelgi í desember í sögunni, næst á eftir Star Wars: The Force Awakens. 

Þessi helgi í desember er þó ekki þekkt fyrir að draga marga í bíó, enda stutt til jóla, og fólk upptekið við jólaundirbúning í Bandaríkjunum eins og víða annars staðar.  Áður en The Force Awakens var frumsýnd hafði engin mynd sem frumsýnd hafði verið í desember náð hærri tekjum en 85 milljónum dala á frumsýningarhelgi, og þá er Avatar, tekjuhæsta mynd sögunnar, talin með.

Rogue One er leikstýrt af Gareth Edwards og er með Felicity Jones í aðalhlutverkinu. Myndin er fyrsta myndin í seríu stakra Star Wars-mynda frá Lucasfilm. Rogue One fjallar um sögufræga sendiför sem orðrómur var um í Star Wars: Episode IV — A New Hope, um hóp uppreisnarmanna sem ætlar að stela uppdrættinum að Dauðastjörnunni, sem endar síðar í höndunum á Leiu prinsessu.

Star Wars: The Force Awakens sló öll met í desember í fyrra þegar hún þénaði 248 milljónir dala í Bandaríkjunum á frumsýningarhelgi sinni, og endaði með að þéna 2,97 milljarða dala um heim allan. Það er þriðja besta aðsókn allra tíma, á eftir Avatar og Titanic, þegar ekki er leiðrétt fyrir verðbólgu.

Bob Iger forstjóri Walt Disney sagði á ráðstefnu í september að þar á bæ væru menn ekki að búast við viðlíka tölum fyrir Rogue One. „Já, markaðsefninu hefur verið mjög vel tekið. Við höfum aldrei haldið að myndin yrði jafn stór og Force Awakens, en við skynjum samt sem áður að áhuginn ekki minni en á Force Awakens.“