Moore ekki hrifinn af síðustu Bond


Í viðtali við BBC sagði gamli Bond-leikarinn Roger Moore að síðasta myndin í seríunni, Quantum of Solace (leikstýrð af Marc Forster) hafi verið langt frá því að vera góð.

„Ég var alls ekki hrifinn af henni,“ segir Moore. „Þetta var eins og langdregin og sundurlaus auglýsing.“ Hann bætti því hins vegar við að hann væri rosalega ánægður með túlkun Daniels Craig á njósnaranum en að myndin í heild sinni hafi alls ekki verið fullnægjandi, og ekkert sérstaklega „Bond-leg.“

Moore, eins og margir vita lék James Bond í 12 ár í sjö myndum. Hann kom fyrst fram árið 1973 í myndinni Live and Let Die og sást seinast í A View to a Kill árið ’85.

Næsta Bond-mynd, sem sögð er bera nafnið Skyfall, er væntanleg í október á næsta ári, og er það Sam Mendes (American Beauty, Road to Perdition) sem leikstýrir henni.