Verður Robocop sænskur?

Þær fregnir berast nú úr draumaverksmiðjunni að sænska leikaranum Joel Kinnaman hafi verið boðið aðalhlutverkið í endurgerð kvikmyndaversins MGM á Robocop. Það þýðir ekki að hann hafi tekið hlutverkinu, en vissulega væri það stór áfangi fyrir leikarann.

Kinnaman hefur vakið nokkura athygli undanfarin misseri, eftir að hafa leikið aðalhlutverkið í Snabba Cash hélt hann vestra og fékk stórt hlutverk í þáttunum The Killing (sem einmitt er endurgerð af dönsku þáttunum Forbrydelsen). Þá hefur hann átt lítil hlutverk í Hollywood myndum eins og Safe House (eftir leikstóra Snabba Cash) og The Girl with the Dragon Tattoo, og átti að fara með eitt aðalhlutverkið í kvikmyndinni Artúr & Lancelot sem nú hefur endanlega verið frestað.

Robocop enurgerðin hefur mallað í forvinnslu í dágóðan tíma, en nú er brasílíski leikstjórinn José Padilha (Tropa de Elité myndirnar) að stefn á að koma myndinni saman. Hann hefur áður tjáð sig eitthvað um hugmyndir sínar fyrir myndina, og sagt að draumaleikarinn í hlutverkið væri Michael Fassbender. Sú hugmynd var aldrei alltof líkleg til að verða að veruleika, Fassbender er kominn á það kaliber að hann getur valið sér hvaða verkefni sem hann vill. Kinnaman ætti að vera lausari og (ódýrari valkostur), sem ætti að geta gert eitthvað áhugavert í hlutverkinu – sérstaklega undir leikstjórn Padilha.

Hvernig leggst hugmyndin um nýja Robocop mynd annars yfirleitt í fólk?